Undirvagn bílsins er hannaður til að geta notast við fram-, aftur- eða fjórhjóladrif og getur bíllinn sent allt aflið fram eða aftur eða skipt því á milli ása. Handbremsan er vökvastýrð og sérhönnuð til notkunar við driftakstur og getur slökkt á afli til afturhjóla meðan hún er í notkun. Bremsuhleðslan er tengd við hemlalæsivörnina og skrikvörnina. Aflið kemur frá sérhannaðri 56,8 kWst rafhlöðu úr nikkel/mangan/kóbalt blöndu sem kælir sig við bremsuhleðslu. Yfirbyggingin er að mestu úr koltrefjum en „vélarhlífin“ er úr lífrænum trefjum sem er enn léttara. Loftflæðipakki bílsins pressar hann niður með meira en 1000 kílóa þrýstingi þegar hann hefur náð 240 km hraða. Bíllinn kemur fyrir almenningssjónir á næstu Nascar keppnum ásamt rafdrifna Mustang Cobra Jet 1400 kvartmílubílnum.