Ford sýndi í dag fyrstu myndirnar af nýjum Focus ST langbak en bíllinn sá fer á markað seinna í sumar. Hann mun fást bæði með dísil- og bensínvél eins og Hatchback útfærsla hans. Dísilvélin er 2,0 lítra EcoBlue vél skráð fyrir 187 hestöflum og bensínvélin 2,3 lítra forþjöppudrifin vél, 276 hestafla. Hægt verður að velja á milli 6 gíra beinskiptingar og 7 gíra sjálfskiptingar í bílinn.

Ford Focus ST er undir 6 sekúndum í hundraðið og búast má við því að 30 kg þyngri langbakútfærsla hans sé örlítið seinni, líklega nálægt sléttum 6 sekúndum. Aðalkosturinn við langbaksútfærsluna er líklega yfrið skottrýmið sem mælist hvorki meira né minna en 608 lítrar og því bíllinn hæfur til lengri og náttúrulega mjög skemmtilegra ferðalaga. Verðið á dísilútgáfunni er 30.595 pund í Bretlandi, eða 4,8 milljónir og bensínútgáfan 33.095 pund, eða 5,2 milljónir króna.