Ford félagið efnir til skemmtilegs leiks á morgun í tengslum við sýningu á afar öflugum torfærubíl, Heklunnar, sem skartar einum 1.000 hestöflum undir húddinu. Verður bíllinn sýndur á morgun, fimmtudag á graseyju milli Grjótháls og Vesturlandsvegar í grennd við bensínstöð Orku og mun standa þar undir tjaldi. Bíllinn verður til sýnis frá kl. 14-16. Þeir sem svara 5 laufléttum spurningum um bílinn og fleira fá gos frá Ölgerðinni og súkkulaði frá Góu í verðlaun. Þessar spurningar eru eftirfarandi.

  1. Hvaða ár var Heklan smíðuð
  2. Hvað heitir ökumaður Heklunnar
  3. Hvernig er Heklan á litin
  4. Hvaða súkkulaði kom fyrst á markað frá Góu
  5. Hvaða ár var Ölgerð Egils Skallagrímssonar stofnað

Heklan er eins og fyrr segir 1.000 hestöfl þegar nitró-kerfi hennar er notað og þar sem bíllinn er aðeins um 1.200 kg að þyngd er ógnarafl í þessum bíl og mun meira en í mörgum af öflugustu ofurbílum nútímans. Ekki veitir af í samkeppninni við aðra einkar hæfa torfærubíla sem keppa í mótaröð torfærunnar hér á landi, en torfærukappar Íslands keppa einnig gjarnan við erlenda torfærubíla og hafa þá reyndar oftast betur.