Nýjasti rafbíll Ford er rafmögnuð útgáfa F-150 pallbílsins, en hann verður frumsýndur 19. maí næstkomandi. Ekki veitir af því að vel takist til við bílinn því hann þarf að keppa við bylgju væntanlegra rafdrifinna pallbíla eins og Hummer EV, Chevy Silverado, Rivian og Tesla Cyberstruck, svo eitthvað sé nefnt.

Ford F-150 Lightning mun koma í sölu strax á næsta ári. Að sögn stjórnarformanns Ford, Jims Farley mun hann geta séð heimilum fyrir orku eins og Hummer EV. Hann verður líka sneggri en öflugustu V útgáfur F-150 og með tveimur rafmótorum og fjórhjóladrifi, nema hvað. Rafhlaðan mun gefa drægi upp á meira en 500 kílómetra. Útlitslega verður hann mjög svipaður öðrum F-150 bílum en að framan verður þó díóðuljósalína sem nær á milli aðalljósanna, sem aðgreinir hann frá öðrum F-150 pallbílum. Auk þess verður hann merktur sérstaklega og búinn nýjum 12 tommu upplýsingaskjá ásamt stafrænu mælaborði.