Samkvæmt forstjóra Ford, Jim Farley, gæti Ford Bronco verið á leið í sýningarsali í Evrópu. Lét hann hafa það eftir sér í viðtali við vefmiðilinn AutoExpress á Goodwood Revival bílahátíðinni. „Ég er bara að bíða eftir að Evrópudeildin ákveði sig,“ sagði Farley við það tækifæri. „Við sjáum hvað Defender er vinsæll hérna megin við hafið og því ætti Ford Bronco að virka vel hér líka.“ Ford Bronco hefur verið rifinn út vestanhafs síðan hann kom á markað. Biðlistar ná langt fram á næsta ár, bæði fyrir tveggja og fjögurra dyra útgáfurnar. Hægt er að velja um 2,7 lítra sex strokka vél sem er 325 hestöfl og fjögurra strokka 296 hestafla 2,3 lítra EcoBoost-vél sem er líklegri kostur ef Bronco-jeppinn kemur til Evrópu.

Ford hefur gefið vísbendingar í þá átt að rafdrifinn Bronco gæti verið á leiðinni. Styttra er þó í Raptor-útgáfu sem verður með 395 hestafla V6-vél undir húddinu. Komi Bronco til Evrópu er líklegt að það verði ekki fyrr en árið 2023. Að sögn Gísla Jóns Bjarnasonar, sölustjóra hjá Brimborg, er umboðið hérna heima að leggja sig fram við að fá Bronco til landsins. „Við erum að vinna í því að fá bíla beint frá Bandaríkjunum,“ sagði Gísli enn fremur.