Bandaríska tímaritið Forbes birtir lista sem inniheldur níu staði sem ferðamenn ættu frekar að heimsækja en Ísland. Samkvæmt tímaritinu sýna skýrslur fram á að það séu sex ferðamenn á hvern íbúa á Íslandi. Reykjavík sé því orðin líkari Disneylandi og ætti fólk heldur að leggja leið sína á fáfarnari staði. Á toppi listans trónir Grænland sem gefi Íslandi ekkert eftir í náttúrufegurð að sögn Forbes.

Grein Forbes lýsir því að Ísland hafi lengi verið í uppáhaldi hjá ferðalöngum, það hafi hins vegar leitt til þess að Ísland hafi verið valið annað versta landið í heiminum þegar kemur að offjölgun ferðamanna. Einnig er þess getið að eftir fall WOW air hafi fluggjöld hækkað til muna.

Grænland á toppinum

Aðdráttarafl Grænlands sé ekki hægt að neita að sögn Forbes enda státi landið af einstöku landslagi og sé enn nánast ósnert af túrisma. Þá eiga ummæli Donald Trumps um fyrirhuguð kaup á Grænlandi að hafa aukið áhuga á landinu til muna. Ferðaskrifstofur hafi tilkynnt að 237 prósent aukningu á heimsókn vefsíða sinna eftir að Bandaríkjaforseti staðfesti áhuga sinn á að festa kaup á landinu.

Næst á listanum er Nýfundnaland í Norður-Kanada og þar á eftir hamingjusamasta þjóð heims Finnland. Portúgal og Asóeyjar fylgja fast á eftir og Alaska situr í sjötta sæti. Nágrannalöndin Noregur og Færeyjar komast einnig á listann en í síðasta sæti er Idaho fylki í Bandaríkjunum.