Eloyse Paquet Poisson, ung kona búsett í borginni Quebec í Kanada, lá í sólbaði í góða veðrinu í almenningsgarði þann 29. maí síðastliðinn.
Hlýtt var í veðri þennan dag og ákvað Eloyse að kæla sig niður með því að fara úr að ofan. Eloyse taldi ekkert mæla gegn því enda voru margir aðrir gestir almenningsgarðsins berir að ofan. Munurinn var þó sá að allir hinir voru karlkyns á meðan hún var eina konan.
Óhætt er að segja að þetta atvik í lok maí hafi undið upp á sig því um helgina fóru fram mótmæli í Montreal þar sem fjölmargar konur, berar að ofan, komu saman í almenningsgarði.
Karlar líka berir að ofan í garðinum
Í umfjöllun kanadískra fjölmiðla kemur fram að ekki hafi liðið á löngu þar til lögreglumaður kom að Eloyse og bað hana að hylja brjóstin. Eloyse neitaði og spurði lögregluþjóninn hvers vegna hann sneri sér ekki að öðrum karlkyns gestum sem voru einnig berir að ofan.
Um tíu mínútum síðar kom lögregluþjónninn aftur og var þá með nokkra aðra laganna verði með sér. Kröfðust þeir þess að hún myndi hylja brjóst sín, ellegar eiga á hættu að vera handtekin fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu.
Úreltur hugsunarháttur
Eloyse skrifaði færslu á Facebook-síðu sína um málið og er óhætt að segja að færslan hafi vakið mikla athygli í Kanada. Um liðna helgi söfnuðust til dæmis fjölmargar konur saman í almenningsgarði í Montreal þar sem þær fóru úr að ofan en um var að ræða einskonar samstöðumótmæli með Eloyse.
Þó að Eloyse hafi þurft að játa sig sigraða þennan dag í lok maímánaðar segir hún að sá tími sé liðinn að kvenmannsbrjóst séu eitthvert tabú. Löngu tímabært sé að breyta úreltum hugsunarhætti í samfélaginu.
CTV News og Global News hafa fjallað um málið og segir Eloyse að karlkyns gestir hafi gert athugasemdir við afskipti lögreglu þennan dag. Einn, sem naut veðurblíðunnar ber að ofan, hafi til dæmis spurt hvort hann ætti yfir höfði sér handtöku fyrir að vera ber að ofan.
Fór fyrir brjóstið á mörgum
Eloyse segir í færslu sinni að lögreglumennirnir sem höfðu afskipti af henni hafi í raun verið sammála henni. Þeir hafi þó fengið kvörtun frá gesti í garðinum og brugðist við henni. Hún bendir á að ekkert í lögunum banni konum að vera berar að ofan á almannafæri og því hafi þessi afskipti lögreglu komið flatt upp á hana.
Jeanne-Mance Park, skipuleggjandi mótmælanna í Montreal um helgina, sagði við kanadíska fjölmiðla í gær að gjörningurinn færi ef til vill fyrir brjóstið á mörgum. „Að mínu mati er það gott, því þegar allt kemur til alls erum við sækjast eftir viðurkenningu á því að fá að nota líkama okkar eins og við viljum nota hann.“

