Maður í Indónesíu sem var smitaður af CO­VID mætti í innan­lands­flug dul­búinn sem eigin­kona sín klæddur í föt hennar, með skil­ríki hennar og nei­kvætt PRC próf í hennar nafni.

Dular­gervið entist þó ekki lengi því flug­þjónn varð vitni að því þegar maðurinn skipti um föt á salerni vélarinnar og lét lög­regluna vita.

„Hann keypti flug­miðann á nafni konu sinnar og kom með skil­ríki, nei­kvætt PCR próf og bólu­setningar­vott­orð í hennar nafni,“ sagði Aditya Laksi­mada, yfir­lög­reglu­þjónn í borginni Ternate þangað sem maðurinn var að ferðast frá höfuð­borginni Jakarta.

Lög­regla hand­tók manninn við lendingu og lét hann gangast undir CO­VID sýna­töku sem reyndist vera já­kvæð.

Maðurinn er í ein­angrun á heimili sínu og sam­kvæmt lög­reglu mun rann­sókn málsins halda á­fram.

Indónesía er að ganga í gegnum eina verstu bylgju far­aldursins í Asíu en 33.772 ný smit hafa greinst á síðasta sólar­hringnum og 1383 dauðs­föll hafa verið stað­fest. Heildar­fjöldi smita sem greinst hafa þar í landi er 2,9 milljónir og alls hafa 77.583 manns látist.