Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, fékk væg einkenni eftir að hún greindist með COVID-19 og neitaði að taka lyf.

„Ég fékk beinverki, hósta og höfuðverki, og ég var síþreytt,“ skrifaði Melania í grein sem hún birti um reynslu sína með kórónaveirusjúkdóminn COVID-19á vefsíðu Hvíta hússins í gær.

Segist hún hafa farið „náttúrulegu“ leiðina með því að taka inn vítamín og borða hollan mat. Segist hún hafa í veikindum sínum hugsað til allra Bandaríkjamanna sem hafa einnig veikst af COVID-19. Hún væri þakklát fyrir að hafa aðgang að frábæru læknateymi og biðji fyrir öðrum sem eru veikir.

Hún hvetur aðra til að borða hollan mat, taka vítamín og fara út að fá sér ferskt loft.

„Persónulega var það mjög áhrifamikið í meðferð minni að hugsa um fjölskylduna, vinskap, vinnu mína og að vera sjálfri mér trú,“ skrifaði hún og sagði mikilvægt að vera ekki að einblína á neikvæðu hlutina í ljósi forsetakosninga.

„Við lifum á fordæmalausum tímum — og nú þegar forsetakosningar nálgast óðfluga þá er auðvelt að festast í neikvæðri orku,“ skrifaði forsetafrúin.

Barron fékk COVID-19

Melania segist hafa haft miklar áhyggjur af fjölskyldu sinni. Þegar Donald Trump hafi verið færður á spítala hafi hún hugsað til sonar síns og óskað eftir sýnatöku fyrir hann.

Barron Trump, yngsti hennar og Donalds Trump Bandaríkjaforseta, reyndist smitaður af COVID-19 á sama tíma og foreldrar hans, en fékk þó ekki einkenni. Hann fór í skimun tvisvar og fékk neikvæðar niðurstöður í fyrri sýnatöku en jákvæð í seinni.