Mikill við­búnaður var í Kross­á þegar rúta festist í ánni við Húsa­dals­vaðið um há­degis­bilið í dag en miklir vatna­vextir eru nú að Fjalla­baki og á Þórs­merkur­svæðinu. Skála­verðir Ferða­fé­lags Ís­lands mættu skömmu síðar og björguðu fólki úr rútunni áður en björgunar­sveitir mættu á vett­vang.

„Það voru rúm­lega 30 manns um borð í rútunni sem voru í hættu og fyrst um sinn þá leit þetta svona í sjálfu sér ekki vel út,“ segir Davíð Már Bjarna­son, upp­lýsinga­full­trúi Lands­bjargar, í sam­tali við Frétta­blaðið um málið en björgunar­sveitir voru kallaðar út frá Hvols­velli og Hellu þegar út­kallið barst.

Að sögn Davíðs barst út­kallið rétt fyrir klukkan tólf í dag og klukkan hálf eitt var búið að bjarga öllum úr rútunni. Mikil­vægt var að koma þeim út sem fyrst þar sem það er hætta á að bílar sem festast í ám losni skyndi­lega og straumurinn snúið þeim við.

Hálftíma eftir að útkallið barst voru allir komnir á þurrt land.
Mynd/Ferðafélag Íslands

Að­spurður um líðan þeirra sem voru í rútunni og hvort ein­hver hafi þurft á læknis­að­stoð að halda segist Davíð ekki hafa upp­lýsingar um það en svo virðist sem allt hafi gengið vel.

„Ég veit alla vega þegar ég talaði við fólk þarna hálf eitt þá gekk þetta alla vega vel og vonum framar, það er alltaf hætta í kringum svona straum­vatn og menn vita aldrei hvað getur gerst, þannig að um leið og það var búið að koma öllum í land og það var yfir­staðið þá önduðu allir léttara,“ segir Davíð.

Líkt og áður segir eru nú miklir vatna­vextir á svæðinu og ferða­fólk hvatt til að fara var­lega. Að sögn Davíðs eru björgunar­sveitirnar alltaf til taks auk þess sem sjálf­boða­liðar á þeirra vegum eru oft að sinna öðrum verk­efnum eða í úti­vist á svæðinu.

„Það var til­fellið núna, það var björgunar­sveitar­fólk sem var vant svona verk­efnum sem var þarna á svæðinu og gat brugðist fljótt við, sem stundum bara skiptir al­ger­lega sköpum.“