Bandaríkjamaðurinn Daniel Hund, sem hrapaði tugi metra á fjallaskíðum á Tröllaskaga í mars, missti báða fótleggina eftir slysið og minnstu munaði að hann tapaði einnig handleggjunum. Hann og Sierra, kona hans, voru hér að fagna brúðkaupsafmæli sínu þegar örlögin gripu í taumana – og takast nú á við gerbreyttar aðstæður í lífi sínu.

Eftir að björgunarsveitarfólk hafði komið honum upp í þyrlu Landhelgisgæslunnar fór hann í hjartastopp, af ástæðum sem rekja má til mikillar ofkælingar og innvortis blæðinga. Líkamshiti hans mun að líkindum hafa verið kominn niður fyrir 25 gráður. Hann var því hnoðaður í hálfa klukkustund í þyrlunni – og hálfa þriðju klukkustund eftir að hann komst undir læknishendur.

Það staðfestir Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir, sem tók á móti Daniel þegar þyrla Landhelgisgæslunnar lenti með hann við bráðamóttökuna í Fossvogi.

„Þetta tilfelli er með flóknari fjöláverkatilfellum sem meðhöndluð hafa verið á Íslandi,“ rifjar Tómas upp og bætir því við að ótrúlegt megi heita að sjúklingurinn hafi lifað af svo mikinn áverka og ofkælingu.

Tómas lýsir þeirri meðferð sem Daniel fékk á Íslandi og hvernig hjarta hans var í nokkra daga að taka við sér eftir átökin.

Viðtalið er hægt að lesa hér að neðan í heild sinni.