Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu hafði uppi á ein­stak­lingi í nótt sem átti að vera í ein­angrun en hann hafði greinst já­kvæður fyrir Co­vid-19. Hann var fluttur í far­sótta­hús þar sem hann dvelur nú.

Við­komandi kom ný­lega til landsins frá út­löndum og hafði greinst já­kvæður fyrir Co­vid-19 í sýna­töku við landa­mærin. Hann hefur síðan ekki sinnt reglum um ein­angrun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu í morgun.

Önnur verk­efni lög­reglunnar í nótt voru fremur hefð­bundin; fimm öku­menn voru teknir grunaðir um akstur undir á­hrifum fíkni­efna og sex fyrir ölvunar­akstur. Einn var vistaður í fanga­klefa því hann hafði verið valdur að um­ferðar­ó­happi.

Fimm líkams­á­rásir voru til­kynntar til lög­reglu en engin þeirra telst vera meiri­háttar. Fjórir gista fanga­geymslur í tengslum við þessar líkams­á­rásir. Einn var hand­tekinn fyrir að brjótast inn í bif­reiðar í mið­bænum og verður hann yfir­heyrður í fyrra­málið.