Landspítalinn hefur náð að minnka glaðloftslosun um helming með sérstökum búnaði. Glaðloft, sem er að stærstum hluta notað á fæðingardeildinni, er 300 sinnum skaðlegri gróðurhúsalofttegund en koldíoxíð.

Búnaðurinn á því stóran þátt í því að Landspítalinn er að ná loftslagsmarkmiðum sínum.

„Meðal fæðing hefur kolefnisspor á við 1.500 kílómetra akstur bensínbíls,“ segir Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisstjóri Landspítalans.

Árið 2016 setti spítalinn sér markmið um að ná losun niður um 40 prósent á fjórum árum og það er að nást núna. Þegar sporið var kortlagt kom í ljós að glaðloft og svæfingagös voru 33 prósent af heildinni.

Glaðloft, N2O, er stundum kallað hláturgas og að langmestu leyti notað við fæðingar. Samkvæmt skýrslu Environice um kolefnisspor höfuðborgarsvæðisins notar Landspítalinn um 80 prósent af öllu glaðlofti, en það er einnig notað í öðrum atvinnurekstri, svo sem á tannlæknastofum.

„Glaðloft er mjög góður verkjastillir og skaðlaus okkar heilsu. Við viljum ekki að konur hafi samviskubit yfir því að nota það,“ segir Hulda.

Hulda segir hag sjúklingsins í forgangi verið sé að skoða allar leiðir til þess að minnka kolefnissporið,

Eyðingarbúnaðinum var komið upp fyrir tveimur árum síðan. Gríman sem andað er í gegnum sogar afgangs glaðloftið til baka inn í vél sem hitar það upp og verður þá efnahvarf sem gerir það meinlaust. Með vélunum hefur náðst að minnka glaðloftslosunina hratt. Árið 2018 var losunin 1.816 tonn en 981 tonn árið 2019 og 900 í fyrra.

Annað gas, desflúeran, sem er 2.540 sinnum skaðlegra en koldíoxíð hafa svæfingalæknar Landspítalans nú hætt að nota. Hulda segir að þetta komi ekki niður á öryggi eða líðan sjúklinganna, sem fá þess í stað svæfingalyf í æð.

„Hagur sjúklingsins er í forgangi en við erum að skoða allar leiðir til þess að minnka kolefnissporið,“ segir Hulda.

Rekstur heilbrigðisþjónustu er ekki fyrirferðarmikill í umræðu um loftslagsmál. En á heimsvísu telur hann um 5 prósent af allri losun.

„Þetta er umfangsmikil starfsemi sem neytir mikils og skilar miklum úrgangi,“ segir Hulda. „Ábyrgð okkar mikil.“

Landspítalinn hefur ráðist í aðrar aðgerði, svo sem að hætta notkun olíukyndingar á Hringbraut, bæta aðstöðu fyrir vistvænar samgöngur, minnka leigubílanotkun og flugferðir og auka fjarfundi.

Þar sem markmiðin frá 2016 eru að nást er næst á dagskrá að setja annað markmið og huga að fleiri leiðum. Nefnir Hulda rafvæðingu bílaflotans og auknar kröfur í vistvænum innkaupum sem dæmi.

„Við erum ekki sest í helgan stein,“ segir Hulda Steingrímsdóttir.