Forsætisnefnd fól siðanefndinni ekki að fjalla um ummæli Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Miðflokksins og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, þar sem þeir töluðu um sendiherraskipan Geirs H. Haarde á Klausturbar. Gunnar hélt þar langa tölu yfir drykkjufélögum sínum þar sem hann lýsti því hvernig hann ætti inni starf í utanríkisþjónustunni fyrir að hafa skipað Geir sendiherra í Washington.

Á inni hjá Sjálfstæðisflokknum

„Þegar ég á fund með Bjarna í fjármálaráðuneytinu og ég segi við Bjarna „Það er algjörlega sjálfsagt. Auðvitað geri ég Geir að sendiherra.“ Og þá segi ég við Bjarna. „Og mér finnst sanngjarnt að þið horfið til svipaðra hluta þegar ég þarf á því að halda.“,“ heyrist í Gunnari Braga á upptökunni. Á hann væntanlega við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra.

Sigmundur Davíð staðfestir þá frásögn Gunnars Braga: Út frá þessu, af því að ég veit að þetta er rétt með sendiherrastöðuna. Ég nefndi þetta við Bjarna. Bjarni má eiga það, þó að mér hafi oft fundist hann vera veiklundaður, en hann viðurkenndi þetta.“ Hann heldur síðan áfram: „Bjarni fór út um víðan völl en niðurstaðan var sú að hann hefði fallist á það að ef þetta gengi eftir, þá ætti Gunnar inni hjá Sjálfstæðismönnum.“

Gunnar Bragi segist hafa skipað Geir sem sendiherra til að eiga inni starf í utanríkisþjónustunni.

Gunnar Bragi dró ummæli sín til baka eftir að greint var frá þeim í fréttum DV og Stundarinnar. Sagði hann í Kastljósi að hann hefði verið að ljúga. Hvorki Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra né Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vildu kannast við að slíkt samkomulag lægi fyrir en þeir sögðust þó hafa átt óformlegan fund með Sigmundi þar sem hann greindi þeim frá áhuga Gunnars Braga á sendiherrastöðu.

Töldu málið ekki falla undir siðareglur

Þegar Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands sem situr í siðanefndinni, var spurður hvers vegna nefndin hefði ekki fjallað um þessi ummæli sagði hann svarið einfalt: nefndinni hefði einfaldlega ekki verið falið að taka þessi ummæli fyrir. Hún færi ekki út fyrir það efni sem forsætisnefnd fæli henni að fjalla um.

Eins og kunnugt er fór bráðabirgðaforsætisnefnd fyrir Klaustursmálinu en hún var skipuð þeim Steinunni Þóru Árnadóttur, þingmanni Vinstri grænna og Haraldi Benediktssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Þau luku meðferð málsins í gær þar sem þau féllust á niðurstöðu siðanefndar um að tveir þingmenn, þeir Gunnar Bragi og Bergþór Ólason, hefðu brotið siðareglur.

Aðspurð segir Steinunn ástæðuna fyrir því að forsætisnefndin hafi ekki falið siðanefnd að taka ummælin um sendiherraskipunina fyrir vera tvíþætta. „Annars vegar er það að þessi embættisskipun í utanríkisþjónustuna var gerð áður en að siðareglur fyrir alþingismenn tóku gildi,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið.

Steinunn sat ásamt Haraldi Benediktssyni í bráðabirgðanefndinni sem fór með meðferð málsins.

„Og hins vegar er þetta mál eitthvað sem að heyrir í rauninni ekki undir siðareglurnar. Hefðu verið einhver brot þar þá eru það ekki siðareglubrot heldur annars konar brot,“ heldur hún áfram. „Þannig þetta heyrir ekki undir reglurnar og þess vegna reyndi ekkert á það í afmörkun málsins.“

En kastar það ekki rýrð á virðingu Alþingis þegar menn stæra sig af pólitískum hrossakaupum í almannafæri?

„Það má örugglega hafa alls konar sjónarmið á því,“ segir hún þá. „En við mátum það sem svo að það væri ekki partur af þessu máli. Og ég heldi í rauninni að það hafi enginn véfengt það að þetta ætti ekki að heyra þarna undir.“

Hvert geta menn þá snúið sér ef ekki til forsætis- eða siðanefndar ef þeir telja að um einhvers konar brot hafi verið að ræða við skipunina?

„Ja, ég eiginlega bara veit það ekki,“ segir hún þá.

Neituðu að mæta fyrir nefnd

Í samtali við Fréttablaðið í gær furðaði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sig á því að siðanefndin hefði ekki minnst einu orði á fullyrðingar Gunnars Braga um sendiherraskipunina. Hún er þá formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sem kallaði alla aðila málsins fyrir nefndina til að kanna hvort brot hefði átt sér stað við skipunina.

Helga vala segir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ekki hafa náð að klára málið því Gunnar Bragi og Sigmundur hafi neitað að koma fyrir nefndina.

„Við náðum ekki að klára málið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd því Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi neituðu ítrekað að mæta,“ sagði Helga. Sendu þeir þess í stað yfirlýsingu um að umfjöllun nefndarinnar um málið væri pólitískt útspil sem væri gert til að koma á þá höggi.