Ó­senni­legt er að hægt verði að opna fyrir flæði fólks til og frá landinu áður en bólu­efni við CO­VID-19 kóróna­veirunni er komið á markað að mati Lilju Al­freðs­dótt­ur, menninga- og mennta­­mála­ráð­herra. Þetta sagði ráð­herra í sam­tali við Viðskiptapúlsinn.

Ekki er al­mennt talið lík­legt að bólu­efni við kóróna­veirunni verði til­búið á næstunni og hafa sér­fræðingar bent á að yfir­leitt taki minnst ár áður en slík lyf eru sett á markað.

Ís­lendingar ferðist innan­lands

Lilja lýsti því að hag­kerfið yrði að hálfu lokað vegna ferða­tak­marka fram að bólu­setningu og því þyrfti að tryggja hag­kerfið innan­lands á næstu mánuðum.

„Núna er það svo að við mun­um ekki sjá fram á að fá er­­lenda ferða­menn um nokkra hríð vegna þess að í þess­ari krísu verða tak­­mark­an­ir á fólks­flutn­ing­um vegna þess­ar­ar heil­brigðis­vá sem við erum að fást við. Við þurfum að ein­blína mjög á inn­­lenda hag­­kerfið okk­ar.“

Lilja mældi með því að Ís­lendinga mynda ferðast innan­lands og nýta sér hótel og að­stöðu sem ferða­þjónustan hefur fjár­fest í síðustu ár. „Við megum ekki gleyma því að öll þessi inn­viða upp­bygging verður til staðar þegar lækningin kemur og við getum opnað aftur fyrir fólks­flutninga.“

Ferðatakmarkanir eru ekki háðar bólefni að mati ferðamálaráðherra.
Fréttablaðið/EPA

Enginn fótur fyrir stað­hæfingum

Þór­dís Kol­brún Gylfa­dóttir, ferða­mála-, iðnaðar og ný­sköpunar­ráð­herra, gagn­rýnir um­mæli Lilju á Face­book síðu sinni og segir ekki standa til að bíða eftir bólu­efni til að létta ferða­tak­mörkunum.

„Að gefnu til­efni finnst mér mikil­vægt að það komi fram að það hefur engin á­kvörðun verið tekin um þetta enda yrði slík meiri­háttar stefnu­breyting alltaf kynnt með form­legum og við­eig­andi hætti.“

Þá sagði Þór­dís um­mælin skiljan­lega hafa vakið upp al­var­legar spurningar, ekki síst innan ferða­þjónustunnar þar sem mjög al­var­leg staða er uppi nú þegar.