Árekstur varð í morgun þegar vörubifreið og fólksbíll lentu saman og var ökumaður fólksbílsins fluttur á sjúkrahús. Ekki er vitað á þessari stundu hvort hann er alvarlega slasaður.

Neyðarlínan fékk tilkynningu rétt rúmlega sjö í morgun um árekstur tveggja bifreiða. Þar hafði fólksbíll ekið í veg fyrir vörubifreið og var ökumaður fólksbílsins fluttur á sjúkrahús eftir að hafa verið klipptur út úr bílnum. Lögreglan á Akranesi hefur ekki upplýsingar um líðan ökumannsins.

Bílarnir lentu saman við gatnamótin við Grundartanga og auk sjúkrabifreiðar, lögreglu frá Akranesi og Borgarnesi var kallaður til tækjabíll og bíll frá rannsóknardeild umferðarslysa á Vesturlandi.

Vesturlandsvegur við Grundartanga er lokaður í báðar áttir vegna slyssins. Hjáleið er um Akrafjallsveg (51).

Umrædd gatnamót hafa verið lagfærð undafarið þar sem slysahætta hefur verið óvenjumikil um þau og slys orðið.