For­sætis­ráð­herra kynnti drög að frum­varpi til laga um kyn­rænt sjálf­ræði á ríkis­stjórnar­fundi í morgun. Drögin hafa verið birt í sam­ráðs­gáttinni þar sem al­menningi og hags­muna­aðilum gefst kostur á að senda inn um­sögn við efni frum­varpsins. 

Í frum­varpinu er lagt til að stað­festur verði með lögum réttur ein­stak­lings til að breyta kyn­skráningu sinni í sam­ræmi við eigin upp­lifun og án þess að þurfa að sæta þar um skil­yrðum líkt og nú­gildandi lög gera. 

Lagt er til að sér­hver ein­stak­lingur sem náð hefur 15 ára aldri hafi rétt til að fá breytt skráningu á kyni sínu í þjóð­skrá og barn yngra en 15 ára geti með full­tingi for­sjár­aðila sinna fengið breytt opin­berri skráningu kyns síns. 

Sam­kvæmt frum­varpinu mun Þjóð­skrá Ís­lands annast breytingu á skráðu kyni og gert er ráð fyrir að breytingin verði ekki háð neinum skil­yrðum. Ó­heimilt verði að gera læknis­fræði­legar með­ferðir að skil­yrði fyrir slíkri breytingu (t.d. skurð­að­gerð, lyfja­með­ferð, hormóna­með­ferð eða aðra læknis­með­ferð, svo sem geð­læknis­með­ferð eða sál­fræði­með­ferð). 

Breyting á skráningu kyns sam­kvæmt frum­varpinu og sam­hliða nafn­breyting skal einungis heimiluð einu sinni nema sér­stak­lega standi á. 

„Frum­varpið miðar þannig að því að virða og styrkja sjálfs­á­kvörðunar­rétt hvers ein­stak­lings þar sem eigin skilningur á kyn­vitund er lagður til grund­vallar á­kvarðana­töku varðandi opin­bera skráningu, enda séu aðrir ekki betur til þess bærir. Einnig er lögunum ætlað að standa vörð um rétt ein­stak­linga til líkam­legrar frið­helgi,“ segir í til­kynningu frá ráðu­neytinu. 

Þar segir enn­fremur að frum­varpið sé í sam­ræmi við stefnu­yfir­lýsingu ríkis­stjórnar Fram­sóknar­flokks, Sjálf­stæðis­flokks og Vinstri­hreyfingarinnar-græns fram­boðs þar sem segir að ríkis­stjórnin vilji koma Ís­landi í fremstu röð í mál­efnum hin­segin fólks með metnaðar­fullri lög­gjöf um kyn­rænt sjálf­ræði í sam­ræmi við ný­út­komin til­mæli Evrópu­ráðsins vegna mann­réttinda inter­sex-fólks. 

Í þeim lögum skyldi kveðið á um að ein­staklingar megi sjálfir á­kveða kyn sitt, kyn­vitund þeirra njóti viður­kenningar, ein­staklingar njóti líkam­legrar frið­helgi og jafn­réttis fyrir lögum óháð kyn­hneigð, kyn­vitund, kyn­ein­kennum og kyn­tjáningu. 

Frestur til að skila inn um­sögn við frum­varpið er til og með 18. febrúar.