Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­varna­deild lög­reglunnar, segir það í lagi að ferðast um helgina en hvetur fólk til að fara var­lega.

„Fólki er alveg ó­hætt að fara í ferða­lög við erum ekki að taka eins djúpt í árina og við gerðum fyrir páskana en það skiptir máli að fara var­lega og virða þessi mörk, hugsa um sínar smit­varnir, sína nánustu og aðra,“ segir Víðir í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Að fara saman ein­hver vina­hópur og tjalda saman í kringum sumar­bú­stað er bara í fínu lagi og eins ef það er pláss á tjald­svæði þar sem eru færri en 100 er það í finu lagi. Það gæti hins vegar orðið snúið að fá pláss því það er nú þegar mikið af fólki á tjald­svæðunum. Við höfum heyrt frá mörgum af þessum stóru tjald­svæðum að þau eru nú þegar orðin full og munu ekki taka við fleiri gestum,“ segir hann enn fremur.

Stærstu tjald­svæði landsins hafa nú þegar verið hólfuð niður þar sem einungis máttu vera 500 manns í hverju hólfi.

„Stærstu tjald­svæðin hafa getað verið með fleiri en eitt hólf. Núna er það bara þannig að hvert hólf tekur bara 100 og þá fer geta tjald­svæðisins langt niður fyrir það sem hefur verið og langt niður fyrir það sem þau geta án tak­markana. Sömu reglur og áður eru í gildi en heildar­fjöldinn fer niður,“ segir Víðir.

Í hverju hólfi þarf að vera sér salernis­að­staða og því geta tjald­svæði með einni þjónustu­mið­stöð bara tekið við 100 manns.

Hefur áhyggjur af smitum sem þau hafa ekki þekkingu á

Spurður um hvort hann hafi á­hyggjur af því að smitum muni fjölga yfir helgina segir hann svo vera.

„Já, við höfum á­hyggjur af því að það sé það mikið smit þarna úti sem við erum ekki með nógu mikla þekkingu á og jafn­vel ein­kenna­lausir ein­staklingar geti smitað stóra hópa og þess vegna settum við þetta við­mið með 100 þó það sé ansi stór hópur að fara í smitrakningu á.“

Spurður um hvort lög­reglan muni kalla til aukinn mann­afla til að sinna eftir­liti segir hann ekki þörf á því að svo stöddu.

„Við erum með mikinn við­búnað um allt land en það hafa ekki verið kallaðir lög­reglu­menn úr fríi. En lög­reglu­liðin öll eru með mikinn auka­mann­skap í vinnu, sumar­af­leysinga­menn og menn að taka auka­vaktir til að manna helgina.“

Meðvitaður um að listamenn eru að fá stærsta höggið

Fjöl­margir lista­menn hafa ausið úr skálum reiði sinnar á sam­fé­lags­miðlum í dag eftir að hertu sam­komu­banns­reglurnar voru kynntar. Víðir segir alveg ljóst að lista­menn séu að taka mikið högg með þessum á­kvörðunum.

„Auð­vitað gerðum við okkur grein fyrir því þegar þessi á­kvörðun var tekin að þetta myndi hafa gríðar­lega í­þyngjandi af­leiðingar fyrir mjög marga og áttum okkur alveg á því að lista­menn hafa haft tak­mörkuð tæki­færi úr að spila í sumar og væntan­lega margir þeirra bundið vonir við helgina. Eins og staðan er þá eru það kannski þeir sem fá mesta höggið í augna­blikinu og þetta hefur lagst ansi þungt á hingað til líka,“ segir Víðir.

„Við erum að vonast til þess að þessar tvær vikur sem við erum að setja niður dugi og vonandi skemmri tími en við munum ekki halda þessu lengur en við þurfum,“ segir Víðir enn fremur.

And­lis­grímur geta gefið falskt öryggi

Í fjöl­miðlum í dag hefur verið mis­ræmi varðandi hvort þeir sem ferðast með strætó verði skyldaðir til að vera með grímur. Víðir segir þetta mis­ræmi stafa frá þeim og bætir við að það verði lagað á morgun.

„Það er mis­ræmi í upp­lýsingum hjá okkur hérna í dag. Í reglunum stendur að það eigi að nota þær í al­mennings­sam­göngum en við höfum verið að tala um fyrst og fremst flug og ferju­siglingar, þar sem fólk er lengi saman. Auð­vitað getur fólk verið lengi saman í strætó en við ætlum að reyna að skýra þetta betur á morgun, en það hefur verið mis­ræmi í upp­lýsinga­gjöfinni okkar í dag varðandi þetta og við þurfum að laga það á morgun,“ segir Víðir.

Spurður um hvort það hafi komið til tals að setja á grímu­skyldu á alla sem eru á al­manna­færi, segir hann Þór­ólf Guðna­son sótt­varna­læknir ekki telja þörf á því.

„Þór­ólfur hefur skoðað það og hann telur að ekki sé þörf á því. Fyrst og fremst vegna þess að það er ekki þessi þétt­leiki hjá okkur eins og er í þessum stór­borgum. Svo gera grímurnar tak­markað gagn, þær gera eitt­hvert gagn en fyrst og fremst í styttri tíma. Eins og í flugi eða ein­hverja ör­fáa klukku­tíma en að vera með grímu allan daginn getur verið falskt öryggi vegna þess að þær hætta að gagnast eftir ein­hverja klukku­tíma og verða blautar í gegn.“