Björgunar­sveitin Kyndill á Kirkju­bæjar­klaustri var kölluð út á áttunda tímanum í gær­kvöldi til að að­stoða ferða­menn sem sátu fastir á þjóð­vegi eitt við Núpá. Þegar björgunar­sveita­fólk bar að garði höfðu bílarnir frosið fastir við veginn.

„Það var alveg sam­felldur klaki frá mal­biki upp í vél,“ segir Jón Hrafn Karls­son, með­limur björgunar­sveitarinnar, í sam­tali við Frétta­blaðið. Sér­stakar að­stæður urðu til þess að klaka­myndun byrjaði. „Kófið og fjúkandi snjórinn bráðnar í vélinni og lekur niður og verður sam­stundis að klaka.“

Sáu ekki handa sinna skil

Erfiðar að­stæður voru á vett­vangi og vind­hviður við Lóma­gnúp fóru upp í 50 metra á sekúndu. „Það var náttúru­lega blind­hríð og kóf þegar við mættum á staðinn og bílarnir alveg ísaðir þannig að það sást hvorki inn í þá né út úr þeim,“ segir Jón Hrafn og bætir við að varla hafi verið hægt að sjá handa sinna skil.

Ferða­mennirnir sex komu að austan á þremur bílum. Þau höfðu neyðst til að stöðva bílana vegna skaf­rennings og kófs og hringdu í kjöl­farið á neyðar­línuna. „Þegar bílarnir stoppa á þjóð­veginum í svona blind­hríð þá skefur að þeim og þá fara þeir ekkert lengra.“

Aðstæður á vettvangi voru erfiðar.
Mynd/Björgunarsveitin Kyndill

Bílarnir enn fastir við veginn

Björgunar­að­gerðir gengu vel en skilja þurfti bílana eftir á veginum. „Fólkið var ró­legt og að­gerðin heppnaðist ó­trú­lega vel miðað við að­stæður.“ Ferða­langarnir voru keyrðir á hótel þar sem þau sem þau munu dvelja þar til vegurinn opnar á ný. „Svo er verk­taki á leiðinni núna að losa bílana en vegurinn verður á­fram lokaður þar til lægir.“

Jón Hrafn segir ferða­menn hafa virt vega­lokarnir síðan vegum var lokað í gær. „Það er alltaf þannig að þegar lokanir eru settar upp að fullt af fólki er inn á lokuðum svæðum, það er bara mis­jafnt hversu lengi fólk er að skila sér eins og í þessu til­viki.“ Björgunar­sveitin er nú stað­sett við lokunar­póst við Núpá til að tryggja að engir fleiri lendi í ó­göngum.