„Árið 2020 er einn af hverjum 95 jarðarbúum á flótta en árið 2010 var það einn af hverjum 159 jarðarbúum sem var á flótta.“ Þetta kemur fram í nýjustu skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Flóttamannasáttmáli Sameinuðu þjóðanna varð sjötíu ára á miðvikudag.

„Loftslagsbreytingar eru að valda fólksflutningum flytjenda og auka hættur sem steðja að þeim sem eru þá þegar þvingaðir til að leggja á flótta,“ segir í skýrslunni.

Þá segir að þau sem séu ríkisfangslaus séu í fremstu víglínu í baráttu við loftslagsvána. „Vandamál tengd fátækt, matvælaöryggi, loftslagsbreytingum, átökum og fólksflutningum flytjenda eru samofin og hanga saman. Það veldur því að enn fleiri flóttamenn eru að sækjast eftir öruggu lífsviðurværi og tryggri tilveru,“ segir einnig í skýrslunni.

Hefðbundnar og varanlegar úrlausnir eru sagðar þær að senda f lóttamenn sjálfviljuga aftur til upprunalands, finna flóttamönnum samastað í öðru ríki og samþætting við það svæði þar sem þeir setjast að.

Saga Emilía Sigurðardóttir, kynningarfulltrúi Félags Sameinuðu þjóðanna, segir vandamálið aukast ár frá ári og að ekki sé raunveruleg lausn í sjónmáli. „Menn héldu að það væri hægt að leysa þetta strax eftir seinni heimsstyrjöldina en það er ekki í augsýn að þetta sé að leysast,“ segir hún og bætir við að fólk á f lótta sé oft skilgreint sem vandamál, „en hvernig geta manneskjur verið vandamál?“

Saga segir mikilvægt að horfa á fólk á flótta í samhengi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. „Sérstaklega markmið sextán sem snýr að friði og réttlæti.