Út­farar­stjórinn Frí­mann Andrés­son segir að það fjölgi alltaf fyrir­spurnum um um­hverfis­væna val­kosti við út­farir og bál­farir en svo þegar kemur að því að velja kistu þá velji fólk hefð­bundnari val­kosti.

Ný­verið tók fyrir­tæki hans, Frí­mann og Hálf­dán – út­farar­þjónusta, inn nýja gerð af kistu, SAGA, sem gerð er úr líf­rænum af­gangi, svo sem rækju­skeljum, sítrónu og kar­töflu auk trefja­efna úr trjám.

„Þetta er nýjung frá kistu­fram­leið­enda í Dan­mörku. Þau eru búin að leggja mikla vinnu í þessa kistu. Hún er búin til úr trjá­kurli og kvoðu og bindi­efnið er náttúru­legt. Fólk talar mikið um þetta en svo þegar á hólminn er komið þá velja þau yfir­leitt eitt­hvað hefð­bundnara,“ segir Frí­mann.

Á myndinni má sjá úr hverju kistan er gerð.

Klædd að innan með hör

Hann segir að kisturnar séu að­eins dýrari en hefð­bundnar kistur og líti að­eins öðru­vísi út.

„Ein­fald­lega því þetta er meiri handa­vinna. Kvoðan er búin til og sett í mót. Út­litið á kistunni er að­eins öðru­vísi. Hún er rúnaðri en venju­leg tré­kista. Hún er kúptari. Þetta var hugsað til bál­farar en það má jarð­setja í henni líka,“ segir Frí­mann.

Hann segir að kistan sé klædd að innan með hör og sé al­ger­lega vist­væn.

„Þetta er á­huga­verður val­kostur,“ segir Frí­mann.

Spurður um á­stæður þess að fólk velji hefð­bundnari kistur segir hann að það megi lík­lega rekja til þess að fólk er að velja kistur fyrir for­eldra sína eða eldri ættingja.

„Sem voru kannski í­halds­samari en þau sjálf, þannig það gæti kannski verið smá tími í að þessi verði valin oftar,“ segir Frí­mann.

Kistan er rúnaðri en hefðbundin trékista.
Fréttablaðið/Ernir

Algengara að fólk skipuleggi sína eigin jarðarför

Hann segir að það verði æ al­gengara að fólk skrái sjálft hvernig á að haga út­för þeirra.

„Það er hægt að fá bæklinga og gögn hjá okkur. Flestar út­farar­stofur bjóða upp á þetta. Það er auð­vitað mjög sniðugt að skrá niður sínar óskir. Það er hægt að skrá laga­val og alveg niður í minnstu hluti. Ef þetta er aldrei rætt í sam­bandi maka eða for­eldra hvernig þetta eigi að vera er þetta svo­lítið sett á herðar þeirra sem eftir lifa,“ segir Frí­mann.

Hann segir að það sé mörgum erfitt að þurfa að plana út­farir.

„Þetta er kannski ekki efst á blaði hjá fólki, að skrá þetta niður eða ræða það við makann,“ segir Frí­mann sem telur þó að oft gerist það þegar fólk missir svo ein­hvern að fólk fari að velta þessu fyrir sér.

„Við fáum alveg fólk hingað til okkar sem eru búin að ræða þetta og það liggur alveg ljóst fyrir. Laga­val og hljóð­færa­leikarar og allt slíkt. Það gerir eftir­leikinn sem þarf að skipu­leggja mjög ein­faldan,“ segir Frí­mann.

Hann segir að ein­föld spurning sem þeir spyrji alltaf að er hvort það eigi að vera bál­för eða jarð­setning. Hann segir að bál­farir séu alltaf að aukast og hafi tekið mikið stökk síðustu sex árin.

„Um­hverfis­vinkillinn hefur ef­laust mikið að segja með það. Bál­farir á höfuð­borgar­svæðinu eru komnar í 60 prósent,“ segir Frí­mann.

SAGA kistan er til sölu og sýnis hjá okkur.

Posted by Frímann og Hálfdán - Útfararþjónusta on Tuesday, 9 March 2021