Line á að baki langan feril í stjórnmálum og bauð sig fyrst fram árið 1996 fyrir Enhedslisten og tók svo sæti í fyrsta sinn á danska þinginu, Folketinget, árið 2001 og sat þar allt til ársins 2011. Hún er lögfræðingur og á fjögur börn. Hún segir að það sé ánægjulegt að sjá öll þau stóru skref sem hafa verið tekin í Danmörku hvað varðar umhverfismál. Sem dæmi sé hringrásarhagkerfið stórt og lifandi og fólk mjög vant því að fara um á öðrum fararskjótum en bíl, en telur þó að það séu víða tækifæri.

Flokkurinn hennar er grænn og þau leggja áherslu á að halda umræðu opinni um loftslagsvána og hafa barist fyrir auknum orkuskiptum í Danmörku en eins og staðan er núna kemur orkan til að hita húsin að miklu leyti frá brennslu á rusli. Barfod vill nýta sólar- og vindorku í auknum mæli, auk þess sem þau eru farin að gera tilraunir með jarðhita.

Flokkurinn tók við embætti umhverfis- og tækniborgarstjóra fyrst fyrir átta árum en núna eru þau í fyrsta skipti með tvo borgarstjóra.

„Þetta er gamalt kerfi og það hefur breyst hversu margir borgarstjórar eru en í 100 ár hefur verið einn aðalborgarstjóri og svo sex til viðbótar. Þetta er sérstakt kerfi því það eru 55 sæti í borgarstjórn og ef þú færð sjö sæti þá áttu rétt á því að fá embætti eins borgarstjórans. Við fengum fimmtán sæti í síðustu kosningum og erum því með tvo núna.“

Fréttablaðið/Getty

Vann stórsigur

Á verksviði Line í borgarstjórn eru skipulagsmál, umferð, loftslag, byggingar, þróun svæða, rekstur vega, almenningsgarða, bílastæða, kirkjugarða og hreinsun borgarinnar og samskipti við birgja á áðurnefndum sviðum.

„Við unnum stórsigur í Kaupmannahöfn í kosningunum síðasta haust og bættum við okkur 50 prósentum miðað við síðustu kosningar og fengum alls fjórðung atkvæða.“

Hún segir að stóra mál kosninganna hafi verið hvernig borg fólk vilji búa í.

Heimilin hafa verið of dýr í of mörg ár.

„Þetta hefur ekki verið svona stórt mál áður. Ég man ekki eftir því á mínum ferli. En það sem fólk vildi ræða var hvernig borg það býr í og hver eigi að ráða því hvernig borg það er.“

Hún segir að það sama gildi í Kaupmannahöfn og öðrum stórborgum í Evrópu, að það hafi verið erfitt fyrir fólk með meðaltekjur að komast inn á fasteignamarkað.

„Heimilin hafa verið of dýr í of mörg ár. Þegar börn komast á fullorðinsaldur og vilja flytja að heiman þá geta þau það ekki því þau finna ekki íbúð sem þau hafa efni á í borginni,“ segir Line sem vill breyta þessu.

Ekki allir þurfa gestaherbergi

Þörfin í Kaupmannahöfn er um 120 þúsund heimili á næstu 30 árum. Spurð hvort hún telji að það muni nægja segir hún að það fari að miklu leyti eftir því hvernig heimili fólk vill eiga og hvernig pláss þarf fyrir það.

„Margir sem ég þekki vilja eiga minni heimili en meira af deildu svæði. Það er ódýrara. Það þurfa ekki allir að vera með gestaherbergi, það er hægt að deila því, og það þurfa ekki allir að vera með stofu fyrir 30 eða 40 gesti, það er hægt að vera með samkomuherbergi í fjölbýlishúsum.“

Hún segir að víða í Danmörku sé þetta þekkt lausn og að hún vilji innleiða hana í auknum mæli í Kaupmannahöfn. Annað sem hún nefnir sem mögulega lausn er að byggja ofan á það sem þegar er byggt og að nýta þök betur.

„Ef þú þarf að fá nýtt þak þá er tilvalið að byggja nýja íbúð í leiðinni ofan á. Okkar mat er að við getum fengið tíu þúsund nýjar íbúðir ef við byggjum ofan á önnur hús,“ segir Line og að næsta verk sé að sannfæra íbúa um að það sé þess virði.

Það þurfa ekki allir að vera með gestaherbergi, það er hægt að deila því, og það þurfa ekki allir að vera með stofu fyrir 30 eða 40 gesti, það er hægt að vera með samkomuherbergi í fjölbýlishúsum

Skýjakljúfum mótmælt harðlega

Spurð hvernig borg eigi að vera í framtíðinni, segir Barfod að það sé ýmislegt sem þurfi að huga að en nefnir sem dæmi að í Kaupmannahöfn hafi skýjakljúfum verið harðlega mótmælt og því hafi engir slíkir verið byggðir síðustu fimm ár.

„Þeim var mótmælt því þeir virka ekki í Kaupmannahöfn. Það er ekki góð leið til að hanna borg og svæðið í kringum þá verður mjög vindasamt og því er í raun ekki mjög fínt að búa þar.“

Hún segir að annað stórt mál sem hennar flokkur hefur barist fyrir sé að fjölga grænum svæðum fyrir almenning og segir mikilvægt að borgarbúar séu sammála um það hvernig eigi að nýta svæðin. Hún segir að í kórónaveirufaraldrinum hafi þau gert sér grein fyrir því hversu fá slík svæði séu í Kaupmannahöfn. Þegar fólk allt í einu flykktist út og mátti aðeins verja tíma saman á slíkum svæðum.

„Hingað til hafa það helst verið einkarekin verktakafyrirtæki sem hafa séð um skipulagningu slíkra svæða en fólk vill nú í auknum mæli koma að slíku ákvarðanatökuferli,“ segir Line og að víða hafi verið mótmælt þar sem á að byggja á grænum svæðum.

Þarf valkosti ef fækka á bílum

Hvað varðar samgöngur segir hún ekki hægt að bera margt saman hér í Reykjavík við stöðuna í Kaupmannahöfn. Þar eigi 70 prósent íbúa ekki bíl og fari að mestu um á hjólum, enda aðstæður til þess kjörnar í borginni.

„Þau sem eiga bíl nota hann svo aldrei daglega, kannski á tveggja vikna fresti. Þannig að við erum líka að fjölga deilibílum í borginni svo að fleiri geti losað sig við bílinn,“ segir Line og að ef stjórnmálafólk ætli að segja fólki að hætta að nota bílinn sinn verði það að kynna aðrar raunhæfar lausnir á móti.

„Það sem rannsóknir sýna samt sem áður er að fólk hættir ekki að nota bílinn fyrr en það er orðið of dýrt að nota hann og erfitt. En þá þurfa að vera aðrar leiðir fyrir fólk til að komast um.“

Flokkur Barfod einbeitir sér að miklu leyti að því að auka við íbúalýðræði en að á sama tíma hafi það verið mikil áskorun, og sé áfram áskorun, að fá fólk til að taka þátt í stjórnmálum sem gerir það ekki vanalega, en að það sé algert lykil­atriði fyrir lýðræðið.

„Það er þörf á því að alls konar fólk taki þátt í opinberri umræðu og hafi áhrif. Við ætlum að prófa okkur áfram í þessu með slembivali í umræðuhópa. Þetta er annars konar umræða en við vonumst til þess að þetta geti hjálpað. Við viljum einnig auka við þátttöku barna en hún er mjög takmörkuð í Danmörku.“

Íbúar Kaupmannahafnar vilja ekki fleiri skýjakljúfa.
fréttablaðið/getty

Fengu blaðamann til liðs við sig

Eins og fram hefur komið vann flokkur hennar stórsigur í kosningunum í Kaupmannahöfn síðasta haust. Spurð hvað það hafi verið sem virkaði fyrir þau í kosningunum, segir Line að það hafi auðvitað verið þeirra stjórnmál, en að annað sem þau gerðu hafi verið að ráða blaðamann í fullt starf í sex mánuði til að sinna kynningarstarfi fyrir þau.

„Blaðamaðurinn gat rammað inn pólitíkina okkar og talað við aðra blaðamenn. En svo tvo síðustu mánuði kosningabaráttunnar fengum við tvo sérfræðinga til viðbótar til liðs við okkur til að sinna samfélagsmiðlunum fyrir okkur.“

Line segir að þetta tvennt tali auðvitað saman. Stjórnmálaflokkur geti verið flottur á samfélagsmiðlum en með innantóm stjórnmál og þá missi fólk fljótt áhugann. Þannig að hvort tveggja verði að vekja athygli fólks svo að það virki.

„Þú getur verið með flotta stefnu en ef enginn heyrir um það þá muntu ekki koma því neitt áleiðis.“