Björgunarsveitir meta í dag hvaða gönguleiðir þeir mæla með fyrir fólk sem ætlar að ferðast að gosstöðum. Þeir ítreka að gangan er erfið og fólk er beðið um að sýna almenna skynsemi þegar kemur að ferðalögum að nýja eldgosinu.
Steinar Þór Kristinsson, svæðisstjóri almannavarna hjá Björgunarsveitinni Þorbjörn segir að þeirra verkefni sé að brýna fyrir fólki að vera vel búið og vera meðvitað hvað það er að fara út í.
„Fólk verður að gera sér grein fyrir því að þetta er löng og erfið ganga. Það þarf að brýna þá fyrir fólki að það þarf að vera betur búið og nesta sig upp fyrir svona ferðalag. Það er aðalmálið,“ segir Steinar.
Í dag stefna björgunarsveitir á að klára gönguleiðir að gosstöðum.
„Við erum að meta hvaða gönguleið við ætlum að mæla með fyrir fólk, bæði til þess að sinna slysaviðbragði og sem gönguland. Þannig að það verður reynt að klára þá vinnu í dag. Aðal línan í dag er að fólk geri sér grein fyrir því að þetta er meira ferðalag en var í gosinu í Geldingadölum,“ segir Steinar
Hann segir að gönguleiðin verði háð veðri, en gasmengun vegna eiturgufa úr eldgosinu er mikil.
„Allt álagið fellur á okkur“
Lögreglan á Suðurnesjum vakti athygli á því í dag að leiðsögumenn hafi sýnt tilmælum viðbragðsaðila lítinn skilning þegar þeir mættu á svæðið með ferðamenn sem vilja sjá gosið. Steinar segir að fólk megi ekki gleyma skynseminni heima.
„Fólk verður að gera sér grein fyrir hvað það er að fara út í, vera vel undirbúið og ekki fara með ung börn. Þarna ertu náttúrulega kominn út í óbyggðirnar,“ segir Steinar.
Hann segir að leiðsögumenn sem eru að mæta með rútur fulla af fólki verði að vera meðvitaðir hvað þeir eru að fara með fólkið út í.
„Þetta er náttúrulega bara aukið álag á okkur ef allt fer í vitleysu þarna upp frá. Allt álagið fellur á okkur,“ segir Steinar.