Björgunar­sveitir meta í dag hvaða göngu­leiðir þeir mæla með fyrir fólk sem ætlar að ferðast að gos­stöðum. Þeir í­treka að gangan er erfið og fólk er beðið um að sýna al­menna skyn­semi þegar kemur að ferða­lögum að nýja eld­gosinu.

Steinar Þór Kristins­son, svæðis­stjóri al­manna­varna hjá Björgunar­sveitinni Þor­björn segir að þeirra verk­efni sé að brýna fyrir fólki að vera vel búið og vera meðvitað hvað það er að fara út í.

„Fólk verður að gera sér grein fyrir því að þetta er löng og erfið ganga. Það þarf að brýna þá fyrir fólki að það þarf að vera betur búið og nes­ta sig upp fyrir svona ferða­lag. Það er aðal­málið,“ segir Steinar.

Í dag stefna björgunar­sveitir á að klára göngu­leiðir að gos­stöðum.

„Við erum að meta hvaða göngu­leið við ætlum að mæla með fyrir fólk, bæði til þess að sinna slysa­við­bragði og sem göngu­land. Þannig að það verður reynt að klára þá vinnu í dag. Aðal línan í dag er að fólk geri sér grein fyrir því að þetta er meira ferða­lag en var í gosinu í Geldinga­dölum,“ segir Steinar

Hann segir að göngu­leiðin verði háð veðri, en gasmengun vegna eitur­gufa úr eld­gosinu er mikil.

„Allt álagið fellur á okkur“

Lög­reglan á Suður­nesjum vakti at­hygli á því í dag að leið­sögu­menn hafi sýnt til­mælum við­bragðs­aðila lítinn skilning þegar þeir mættu á svæðið með ferða­menn sem vilja sjá gosið. Steinar segir að fólk megi ekki gleyma skyn­seminni heima.

„Fólk verður að gera sér grein fyrir hvað það er að fara út í, vera vel undir­búið og ekki fara með ung börn. Þarna ertu náttúru­lega kominn út í ó­byggðirnar,“ segir Steinar.

Hann segir að leið­sögu­menn sem eru að mæta með rútur fulla af fólki verði að vera með­vitaðir hvað þeir eru að fara með fólkið út í.

„Þetta er náttúru­lega bara aukið álag á okkur ef allt fer í vit­leysu þarna upp frá. Allt á­lagið fellur á okkur,“ segir Steinar.