Hlé var gert á kjaraviðræðum Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins í gær.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sem stendur utan þessara viðræðna, hvetur fólk til samstöðu.
„Ætlar fólk að sætta sig við að auðstéttin sigli hlæjandi fram hjá í góðærisfleyinu sínu á meðan að þau sem hafa svitnað fyrir hagvöxtinn eru skilin eftir í hriplekum báti?“ skrifaði Sólveig Anna á Facebook-síðu sína
Sagði Sólveig Anna að hagvöxtur á Íslandi í ár sé 7 prósent og 4,4 prósent í fyrra. Hagnaður fyrirtækja í Kauphöllinni væri 34 milljörðum meiri nú en á sama tíma í fyrra. Það væri 30 prósenta hækkun.
„Samtök atvinnulífsins reyna að troða upp á okkur 4 prósenta launahækkun. Í verðbólgu sem fer yfir 9 prósent. Verðbólgu sem étur upp kaupmáttinn okkar,“ skrifar formaðurinn.
„Ég vona að fólk skilji að við verðum að standa saman, vopnuð sjálfsvirðingunni og vitneskjunni um að við erum ómissandi í allri verðmætasköpun þjóðfélagsins.“