Iryna Kamienieva flúði til Íslands stuttu eftir að stríðið hófst í heimalandi hennar, Úkraínu, í febrúar. Iryna er listamaður og aðstoðaði við hönnun nýs styrktarbols sem er hluti af nýju átaksverkefni UN Women og 66° Norður til stuðnings konum á flótta vegna árásar Rússa í Úkraínu.
Verkefnið var formlega sett af stað á Bessastöðum í dag en verkefnið snýr að vitundarvakningu og stuðningi við konur á flótta en UN Women vinnur markvisst að því að tryggja að þarfir allra kvenna og stúlkna sé mætt.Iryna aðstoðaði Þórdísi Claessen, hönnuð 66° Norður við hönnun bolsins og segir að hún hafi verið fengin til verkefnisins vegna þess að hún þekkti betur mynstrin og auðvitað tungumálið og ætti auðveldara með að leita upplýsinga um bæði.
„Þetta eru ekki upplýsingar sem hafa verið þýddar á ensku eða önnur tungumál. Ég leitaði því að allskonar upplýsingum um mynstrin og svo hannaði Þórdís bolinn í samræmi við það,“ segir Iryna í samtali við Fréttablaðið.
Iryna kom til Íslands stuttu eftir að innrás Rússlands hófst í Úkraínu en hún hafði verið á ferðalagi með kærastanum sínum erlendis þegar stríðið braust út.
„Okkur langaði að fagna afmælinu hans með því að ferðast. Við byrjuðum á því að fara til Berlínar og svo fórum við að hitta ættingja og vini í Póllandi. Svo vöknuðum við einn daginn og þá hafði stríðið brotist út,“ segir Iryna og að þau hafi hugsað vel og lengi hvort þau ættu að snúa aftur heim en hafi ákveðið að fara annað. Þau hafi ákveðið að fara frá Póllandi því það lá beint við að mikill straumur flóttamanna myndi liggja þangað.
„Ég var alls ekki undirbúin. Fólk sem er að fara núna hefur haft tíma til að pakka og safna saman skjölum. Ég fór með lítinn bakpoka og bjóst alltaf við því að fara til baka,“ segir Iryna og að það hafi verið mjög erfitt að takast á við tilfinningar um að hún gæti ekki snúið aftur strax.

Ánægð með stuðning yfirvalda
Iryna og kærastinn hennar komu til landsins í gegnum Keflavík og leituðu strax til lögreglunnar. Hún lofsamar þá aðstoð sem hún hefur fengið frá komunni til landsins.
„Yfirvöld hafa stutt okkur. Það er enginn á götunni og enginn að svelta,“ segir Iryna og að í fyrstu hafi þau verið flutt á milli nokkurra hótela en að nú leigi hún og kærastinn hennar íbúð saman en hún er farin að vinna á meðan hann er enn í atvinnuleit.
Iryna hóf nýverið störf í móttökumiðstöð Útlendingastofnunar við Egilsgötu þar sem hún tekur á móti þeim sem þangað leita eftir aðstoð.
„Það getur verið flókið fyrir fólk að vita hvar það eigi að byrja þannig ég aðstoða með það,“ segir hún.
Iryna segir að hún hafi verið hjálparvana þegar hún kom og hafi viljað aðstoða ættingja sina en lítið getað gert. Því fylgi því góðar tilfinningar að geta aðstoðað fólk í móttökumiðstöðinni og að hafa aðstoðað 66° Norður við gerð bolsins. Styrktarbolurinn er samsettur af þjóðlegum Vyshyvanka mynstrum sem vernda gegn öllu illu fyrir þeim sem klæðist flíkinni og ljóði eftir úkraínsku skáldkonuna Lesia Ukrainka.
„Þetta er hluti af úkraínska þjóðbúningnum, sem er skyrta sem venjulega er úr lín og er venjulega saumið út. Munstrin eru ólík og litirnir geta verið allskonar en við ákváðum að velja rauðan og svartan því það eru algengustu litirnir,“ segir Iryna.
Hún útskýrir að munstrin og litirnir séu ólík eftir svæðum en að upprunaleg merking þeirra hafi týnst og að með tímanum hafi munstrin fengið nýjar merkingar.
„Þær eru ekki upprunalegar en margir trúa því samt að þær séu það. En það sem við vitum er að fólk tengir rauða litinn við ást og svarta við sorg og skyrturnar eru taldar verja eigendur sína fyrir öllu illu. Það er því táknrænt að nota þetta svona því við viljum veita fólk vernd.“

Ljóðið tákn baráttu
Á bakhlið styrktarbolsins er að finna tilvitnun úr ljóðinu „Contra Spem Spero“ eftir úkraínsku skáldkonuna Lesiu Ukrainka.
„Ljóð eru vinsæl í Úkraínu og höfundurinn er ein sú vinsælasta í Úkraínu. Hún er tákn baráttu og sterkrar manneskju sem lifir hvað sem er af og brosir á meðan. Ljóðið er um það,“ segir Iryna um ljóðið á baki bolsins og að orðin í ljóðinu hvetji til þess að sjá samt það sem er fallegt þrátt fyrir illskuna.
„Það sem ég er svo glöð með er hversu sameinaðir allir eru. Allir gera sitt. Sama hvort það er bara að deila einhverju á Instagram þá er mikilvægt að deila upplýsingum. Fólk gefur pening til hersins og það er frábært að sjá að við séum að berjast fyrir tilvist okkar.“
Vonastu til að geta farið aftur?
„Auðvitað, ég sakna heimalands míns og vina minna og fjölskyldu,“ segir hún en margir af vinum hennar hafa snúið aftur heim.
Fjölskylda Irynu er enn í Úkraínu en heimili þeirra er nærri Kænugarði. Hún segir að hún hafi miklar áhyggjur af fjölskyldu sinni en að aðstæður núna séu miklu betri en fyrir þremur mánuðum þegar stríðið hófst og að þótt svo að það sé ekki hættulaust að vera í Úkraínu þá líði henni eins og þau séu ekki í eins mikilli hættu og þá.
„En okkar markmið er að koma okkur fyrir hér, svo við getum farið að vinna og stutt við fjölskyldur okkar sem enn eru í Úkraínu.“
Afhentu forseta og ráðherra bolinn
Allur ágóði af sölu bolsins rennur til verkefna UN Women í Úkraínu. Aðstandendur átaksins afhentu forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni styrktarbol á Bessastöðum í dag á Bessastöðum þar sem verkefnið var kynnt. Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, og utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fengu jafnframt afhenta styrktarboli í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag.
Í tilkynningu frá UN Women kemur fram að samkvæmt Erika Kvapilova, fulltrúa UN Women í Úkraínu, er sérstök nefnd á vegum Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna að rannsaka 75 tilkynningar þar sem talið er að nauðgunum hafi verið beitt sem stríðsvopni af rússneska hernum í Úkraínu.
„Við hjá UN Women á Íslandi erum óendanlega þakklát fyrir þann stuðning og frumkvæði sem 66°Norður hefur sýnt með þessu mikilvæga samstarfsverkefni. Gríðarleg þörf er á fjármagni til þeirra verkefna sem UN Women sinnir núna í Úkraínu, þar sem 90% þeirra sem eru á flótta eru konur og börn. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem 66°Norður styður við okkar starf, því nú þegar eigum við í ómetanlegu samstarfi um að styrkja atvinnuþátttöku og fjárhagslegt öryggi sýrlenskra kvenna á flótta sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Tyrklandi, en það verkefni er einnig ríkulega styrkt af utanríkisráðuneytinu.
Gríðarleg þörf er á fjármagni til þeirra verkefna sem UN Women sinnir núna í Úkraínu, þar sem 90% þeirra sem eru á flótta eru konur og börn.
Það er einstakt að sjá fyrirtæki taka af skarið og sýna samfélagslega ábyrgð með því að styðja við konur og stúlkur á flótta. Stuðningur 66° Norður er ekki síður mikilvægur í ljósi þess að fjöldi fólks á flótta í heiminum í dag hefur aldrei verið meiri, en það er heimsmet sem ekkert okkar vildi sjá slegið. Það er von okkar að 66°Norður verði fyrirmynd og öðrum fyrirtækjum til eftirbreytni í þessum efnum, enda er ljóst að ekki verður hægt að mæta þörfum þeirra 100 milljóna sem nú eru á flótta í heiminum nema með aukinni þátttöku einkageirans,“ segir Stella Samúelsdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, í tilkynningu.
Bjarney Harðardóttir, eigandi 66°Norður, tekur undir það og segir að samstarfið við UN Women sé einstakt.
„Það hefur verið einstakt að vinna með UN Women á Íslandi bæði að þessu verkefni þar sem við erum að styðja við konur á flótta í Úkraínu og samstarfsverkefninu í Tyrklandi. Við starfrækjum verksmiðjur í Lettlandi og byrjuðum strax að huga að leiðum til að styðja við fólk á flótta frá stríðinu. Við höfum ávallt haft jafnrétti og sjálfbærni í öndvegi og fylgjum eftir Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Við erum meðvituð um að við öll þurfum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að stuðla að betri heimi.“