„Eld­gosið er mallandi þarna upp frá. Það rignir smá, en annars hefur enginn farið þarna upp í dag,“ segir Steinar Þór Kristins­son, svæðis­stjóri al­manna­varna um stöðuna á eld­gosinu í Mera­dölum, en lokað hefur verið að gos­stöðvunum í allan dag.

Hann segir að gær­kvöldið hafi að mestu gengið vel. „Í gær gekk bara ó­trú­lega vel. Það var eitt­hvað álag þarna hjá okkur seint í gær­kvöldi, fólk að mæta sem var orðið lúið,“ segir Steinar, en upp kom í gær að fólk var að mæta með of ung börn sem urðu ör­magna á leiðinni.

„Fólk er að mæta með of ung börn, það er það sem við erum að horfa upp á. Við reynum að segja við fólk í hvaða að­stæður það er að fara út í og mæla með að gera það ekki ef það er ekki til­búið í það. Við getum svo sem ekki bannað fólki að fara, en það tekur yfir­leitt vel í það sem við höfum að segja. Það er bara allur gangur á þessu,“ segir Steinar.

Hann segir að nýja göngu­leiðin sé að fara vel í fólkið. „Nýja göngu­leiðin er flott og fólki hefur al­mennt gengið vel að fara hana. Hún er gróf, en við erum með fólk þarna til­búið, enda er það hluti af okkar vinnu að vera til staðar ef eitt­hvað kemur upp á,“ segir Steinar.

Hann segir að veðrið ráði hve­nær gos­stöðvarnar opni aftur.

„Það fer allt eftir hvernig veðrið þróast, annars bara ó­mögu­legt að segja til um það.“