„Einn rann­sóknar­mannanna kom inn í klefa til mín, eins og þeir oft gerðu. Þá fór hann að tala um að hann vildi hjálpa mér og hvað þetta væri erfitt. Hann hallar hurðinni og næsta sem ég veit er að hann girðir niður um sig og er búinn að setja á sig verju og gengur hreint til verks. Hann er stöðugt að tékka hvort ein­hver sé að koma. Hann var kannski tíu mínútur eða korter þarna inni. Hann hvíslar svo eitt­hvað: „Ekki tala um þetta“, og fer,“ sagði Erla Bolla­dóttir á blaða­manna­fundi fyrr í dag, en hún lýsti þar kyn­ferðis­of­beldi sem hún varð fyrir af hendi rann­sóknar­lög­reglu­manns í Síðu­múlafangelsi árið 1976 þegar hún sat í gæslu­varð­haldi.

Til­efni blaða­manna­fundarins var synjun Endur­upp­töku­dóm­stóls á endur­upp­töku á þætti Erlu í Guð­mundar- og Geir­finns­málunum, en hún er sú eina af sex­menningunum sem hlutu dóma í málinu sem hefur ekki fengið mál sitt endur­upp­tekið.

Erla lagði fram kæru árið 2013 vegna nauðgunarinnar sem átti sér stað í Síðu­múlafangelsinu árið 1976. Rann­sókn málsins var hins vegar látin niður falla þar sem meint brot reyndist fyrnt. Þá neitaði meintur gerandi sök í málinu.

Erla segir að seinna þegar hún hafi fengið að lesa fangelsis­dag­bækurnar hafi hún komist að því að meintur gerandi hafi rætt við fanga­verði eftir verknaðinn, sem renni stoðum undir frá­sögn hennar.

„Þegar þessum degi lauk fer hann til fanga­varða og biður þá um að gefa mér tvær pillur og svo getnaðar­varnar­pillu í fram­haldinu. Það var ekki nein á­stæða til þess hvað mig varðar,“ sagði Erla. Hún hafi svo kært hann löngu síðar. „Hann kom ekki til vinnu eftir það.“

Náði ekki að mynda tengsl við dóttur sína vegna málsins

Erla segir málið hafa haft gríðar­leg á­hrif á líf sitt, alveg frá því hún var fyrst hand­tekin vegna málsins árið 1975 og fram til dagsins í dag.

„Sam­band mitt við fyrsta barn mitt leið fyrir þetta og gerir enn í dag. Hún var orðin tveggja ára þegar ég fékk hana til baka. Ég þurfti að berjast til að fá hana aftur, en það stóð ekki til að hún kæmi aftur til mín. Hún er orðin tveggja ára og þurfti alltaf að hafa mig í aug­sýn,“ sagði Erla, og bætti við „Við náðum ekki að mynda þessi tengsl í öllu þessu, milli móður og dóttur.“

Fékk óblíðar móttökur almennings

Þegar hún hafi svo verið látin laus úr gæslu­varð­haldi hafi al­menningur tekið vægast sagt illa á móti henni.


„Það sem tók við var því­lík heift, fyrir­litning og hatur sem ég mætti. Ég hafði ekki hug­mynd um það sem var í gangi í blöðunum, þannig að það var mikið á­fall fyrir mig þegar ég fékk lausn úr gæslu­varð­haldi. Fólk sem þekkti mig ekki fór að hrækja á mig og út­húða mér,“ sagði Erla. Hún hafi þurft að fara var­lega þegar hún fór út meðal al­mennings.

„Mér var alls staðar sagt að hér væri ég ekki vel­komin, fólk eins og ég. Að dauða­dómurinn ætti að vera í gildi fyrir fólk eins og okkur,“ sagði Erla, og bætti við: „Ég á þeim tíma hefði aldrei þorað að segja neinum að þetta var lygi. Ég varð að standa við lygina, því annars yrði ég dæmd aftur,“ sagði Erla.

Vill formlega jarðarför málsins

Á fundinum opnaði Erla sig um að hún berjist nú við ó­læknandi krabba­mein, en hún segist hafa sent stjórn­völdum trúnaðar­bréf með um­sókninni um endur­upp­töku.

„Ég á enga ósk heitari, hvað mig per­sónu­lega varðar, en að þetta mál fái sín enda­lok og fari bara fram form­leg jarðar­för á þessu öllu saman. En það gerist ekki fyrr en rétt­læti kemur fram,“ sagði Erla.

Spurð segist Erla óttast að fá ekki lyktir í málinu áður en yfir lýkur, þá sérstaklega þar sem hún sé að gera þetta fyrir fjölskylduna sína.

„Ég hefði aldrei gert þetta ef þetta snerist ein­göngu um mína vel­ferð. Af­kom­endur mínir ganga inn í þetta svo­kallaða réttar­ríki og taka við völdum í fram­tíðinni. Ef þetta er ekki leið­rétt ganga þau inn í þetta og guð má vita hversu mikill kúkur kemur í við­bót úr ein­hverju öðru máli. Ég vil líka að það komi fram, að þetta er að gerast í dag,“ sagði Erla.

Nánar verður rætt við Erlu á Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld klukkan 18:30.