Sóttvarnalæknir ráðlagði í gær gegn „ónauðsynlegum ferðum“ til Lombardíu, Venetó, Emilía Rómanja og Píemonte á Ítalíu. Sjö Íslendingar eru í sóttkví á Tenerife vegna gruns um að ítalskur gestur á hóteli þeirra sé smitaður af COVID-19 kórónaveirunni. Ekki er varað við ferðum til Tenerife.

Íslendingarnir sem um ræðir á Tenerife dveljast á vegum ferðaskrifstofunnar Vita á Hótel Costa Adeje Palace við La Enramada ströndina í Costa Adeje. Ítalskur læknir frá Lombardíu sem dvalið hafði á hótelinu í viku veiktist og leitaði aðstoðar. Fyrsta greining leiddi í ljós að hann væri með COVID-19 kórónaveiruna en það hafði þó ekki verið endanlega staðfest er Fréttablaðið fór í prentun í gær. Vegna þessa var ákveðið að setja alla gesti hótelsins í sóttkví uns annað verður ákveðið.

Sóttvarnalæknir aflaði í gær upplýsinga um hvort og þá hverjir hefðu dvalið á Costa Adeje Palace og séu nú komnir til landsins eða á heimleið. „Er þeim sem hafa dvalið á hótelinu undanfarnar tvær vikur ráðlagt að halda sig heima í fjórtán daga í varúðarskyni. Enn sem komið er er engin þörf á að aðrir ferðamenn en þeir sem hafa bein tengsl við umrætt hótel fari í sóttkví við heimkomu til Íslands,“ segir í tilkynningu Landlæknis.

Ekki mun væsa um Íslendingana á Hótel Costa Adeje Palace sem lýst er sem einstaklega glæsilegu fjögurra stjörnu hóteli. Var þeim í gær að minnsta kost frjálst að fara um hótelsvæðið og voru þeir því ekki bundnir herbergjum sínum.

„Enn sem komið er, eru ekki vísbendingar um að tilfellin séu fleiri og veiran hafi breiðst út. Að sinni er því ekki mælt gegn ferðum til Tenerife. Hins vegar er brýnt að þeir sem annaðhvort eru á svæðinu eða hyggja á ferðalög þangað hugi vel að persónulegu hreinlæti og fylgi fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda á svæðinu,“ segir á vef Landlæknis.

Sem fyrr segir varar sóttvarnalæknir við ferðalögum til fjögurra héraða á Ítalíu. „Þeim sem dvalið hafa á þessum svæðum á undanförnum dögum og eru komnir til landsins eða eru að koma til landsins er ráðlagt að halda sig heima í fjórtán daga í varúðarskyni.“

Þetta eigi þó ekki við um þá sem ferðast frá Ítalíu til Íslands í gegnum alþjóðaflugvelli á Norður-Ítalíu en hafa dvalið á öðrum svæðum. „Brýnt er að þeir sem annaðhvort eru á svæðinu hugi vel að persónulegu hreinlæti og fylgi fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda,“ segir á vef Landlæknis.

Íslendingar sem ferðast til Norður-Ítalíu á þessum árstíma sækja einna helst í skíðasvæði þar. Þau eru að sögn Landlæknis enn sem stendur utan áhættusvæða. Engin tilfelli um kórónaveiruna hafi verið tilkynnt þaðan.

Þá segir að staðan sé stöðugt metin. „Litlar líkur eru á að veiran verði lýðheilsuógn í löndum Evrópu sem beita einangrunar- og sóttkvíaraðgerðum. Sýkingin getur hins vegar orðið íþyngjandi fyrir þá einstaklinga sem sýkjast,“ segir á vef Landlæknis.

Hvað á að gera vegna veirunnar?

  • Fylgjast vel með ferðatakmörkunum og fjöldasamkomutakmörkunum sem Kínverjar, Ítalir og mögulega aðrir hafa gert innanlands og aðlaga ferða­áætlanir eins og þurfa þykir.
  • Gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti með sápu og vatni.
  • Handspritt má nota ef ekki er hægt að þvo hendur. Þó skyldi alltaf þvo hendur með sápu og vatni ef þær eru sýnilega óhreinar.
  • Forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni/hósta.
  • Ekki snerta munn, nef eða augu með óþvegnum höndum.
  • Nota pappír fyrir vit við hnerra og hósta og þvo hendur reglulega.
  • Henda skal pappír eftir notkun.
  • Forðast samneyti við villt dýr eða dýr á almennum mörkuðum.