Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki lagaheimild til þess að greiða fyrir sjúkraflug til landsins. Almennar sjúkratryggingar innan Evrópu ná til læknis- og sjúkdómsþjónustu ef fólk sækir opinberar stofnanir. Utan EES er einungis hluti kostnaðar endurgreiddur.

Mál tveggja manna, Gísla Finns­sonar og Sigurðar Kristins­sonar, hafa vakið at­hygli á undan­förnum vikum. Báðir voru þeir fastir á Spáni í þó nokkrar vikur vegna þess að Sjúkra­tryggingar Ís­lands borga ekki kostnað við sjúkra­flug til landsins.

„Al­menni rétturinn innan Evrópu er þannig að ef þú þarft að fá læknis­þjónustu eða sjúk­dóms­þjónustu, þá borga sjúkra­tryggingar það al­mennt. Þá er reyndar ætlast til þess að fólk fari á opin­berar sjúkra­stofnanir, sér­stak­lega ef það er inn­lögn, en annars getur fólk bara leitað til næstu lækna­stöðvar og sjúkra­tryggingar borga það,“ segir Ingi­björg K. Þor­steins­dóttir, sviðs­stjóri réttinda­sviðs hjá Sjúkra­tryggingum Ís­lands.

Hún segir mál Gísla og Sigurðar hafa snúið að heim­flutningi og það sé ekki heimild sam­kvæmt lögum til að greiða fyrir það.

„Al­mennt höfum við átt sam­starf við tryggingar­fé­lögin þannig að ef ein­hver veikist eða slasast er­lendis, og ef hann er tryggður hjá tryggingar­fé­lögum, þá borga tryggingar­fé­lögin upp að á­kveðnu há­marki. Þá borgum við sjúkra­kostnaðinn og þau geta borgað sjúkra­flugið,“ segir Ingi­björg.

Eins og fyrr segir hafa mál Gísla og Sigurðar fengið mikla um­fjöllun og at­hygli. Gísli, sem er 35 ára þriggja barna faðir, fannst með­vitundar­laus utan­dyra þann 21. ágúst síðast­liðinn eftir að hafa farið út með fé­lögum sínum að skemmta sér í Tor­revi­eja. Gísli dvaldi á sjúkra­húsi ytra til 8. októ­ber þegar hann var fluttur til landsins með sjúkra­flugi.

Sigurður, sem er 71 árs, fékk heila­blóð­fall sem varð til þess að hann lamaðist vinstra megin í líkamanum og var hann því lagður inn á sjúkra­hús, þar sem hann dvaldi til 12. októ­ber síðast­liðins, en þá var hann fluttur til landsins með sams konar sjúkra­flugi og Gísli.

Ef maður slasast eða veikist utan EES, eins og í Banda­ríkjunum til dæmis, þá er það þannig að við borgum í rauninni eins og kostnaðurinn hefði verið hér á landi, sem er oft bara brota­brot, því reikningar frá Banda­ríkjunum eru yfir­leitt ekki mjög lágir.

Fjöl­skylda Gísla hóf söfnun fyrir hann sem fór hratt af stað og voru þau fljót að safna fyrir sjúkra­fluginu, sem kostar á milli sex og átta milljónir króna. Það sem safnaðist um­fram kostnaðinn fór til söfnunar sem fjöl­skylda Sigurðar hafði komið á lag­girnar. Fjöl­skyldur beggja þurftu að treysta á fram­lög ein­stak­linga til þess að koma þeim heim.

Ingi­björg segir mál Gísla og Sigurðar dæmi um það þegar fólk er ekki með tryggingar. „Það eru þau sem eru að lenda í vand­ræðum.“

Hún hvetur alla sem ferðast til Evrópu til að hafa evrópska sjúkra­trygginga­kortið með­ferðis, en þegar því er fram­vísað er borgað það sama og þeir borga sem tryggðir eru í við­komandi landi.

„Ef maður slasast eða veikist utan EES, eins og í Banda­ríkjunum til dæmis, þá er það þannig að við borgum í rauninni eins og kostnaðurinn hefði verið hér á landi, sem er oft bara brota­brot, því reikningar frá Banda­ríkjunum eru yfir­leitt ekki mjög lágir,“ segir Ingi­björg.

„Síðan borgum við á­kveðna prósentu af því sem um­fram er, og það fer eftir stöðu við­komandi, náms­menn og líf­eyris­þegar fá til dæmis að­eins hærri greiðslur en aðrir, þannig að það eru á­kveðnar reglur sem gilda um það.“