Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki lagaheimild til þess að greiða fyrir sjúkraflug til landsins. Almennar sjúkratryggingar innan Evrópu ná til læknis- og sjúkdómsþjónustu ef fólk sækir opinberar stofnanir. Utan EES er einungis hluti kostnaðar endurgreiddur.
Mál tveggja manna, Gísla Finnssonar og Sigurðar Kristinssonar, hafa vakið athygli á undanförnum vikum. Báðir voru þeir fastir á Spáni í þó nokkrar vikur vegna þess að Sjúkratryggingar Íslands borga ekki kostnað við sjúkraflug til landsins.
„Almenni rétturinn innan Evrópu er þannig að ef þú þarft að fá læknisþjónustu eða sjúkdómsþjónustu, þá borga sjúkratryggingar það almennt. Þá er reyndar ætlast til þess að fólk fari á opinberar sjúkrastofnanir, sérstaklega ef það er innlögn, en annars getur fólk bara leitað til næstu læknastöðvar og sjúkratryggingar borga það,“ segir Ingibjörg K. Þorsteinsdóttir, sviðsstjóri réttindasviðs hjá Sjúkratryggingum Íslands.
Hún segir mál Gísla og Sigurðar hafa snúið að heimflutningi og það sé ekki heimild samkvæmt lögum til að greiða fyrir það.
„Almennt höfum við átt samstarf við tryggingarfélögin þannig að ef einhver veikist eða slasast erlendis, og ef hann er tryggður hjá tryggingarfélögum, þá borga tryggingarfélögin upp að ákveðnu hámarki. Þá borgum við sjúkrakostnaðinn og þau geta borgað sjúkraflugið,“ segir Ingibjörg.
Eins og fyrr segir hafa mál Gísla og Sigurðar fengið mikla umfjöllun og athygli. Gísli, sem er 35 ára þriggja barna faðir, fannst meðvitundarlaus utandyra þann 21. ágúst síðastliðinn eftir að hafa farið út með félögum sínum að skemmta sér í Torrevieja. Gísli dvaldi á sjúkrahúsi ytra til 8. október þegar hann var fluttur til landsins með sjúkraflugi.
Sigurður, sem er 71 árs, fékk heilablóðfall sem varð til þess að hann lamaðist vinstra megin í líkamanum og var hann því lagður inn á sjúkrahús, þar sem hann dvaldi til 12. október síðastliðins, en þá var hann fluttur til landsins með sams konar sjúkraflugi og Gísli.
Ef maður slasast eða veikist utan EES, eins og í Bandaríkjunum til dæmis, þá er það þannig að við borgum í rauninni eins og kostnaðurinn hefði verið hér á landi, sem er oft bara brotabrot, því reikningar frá Bandaríkjunum eru yfirleitt ekki mjög lágir.
Fjölskylda Gísla hóf söfnun fyrir hann sem fór hratt af stað og voru þau fljót að safna fyrir sjúkrafluginu, sem kostar á milli sex og átta milljónir króna. Það sem safnaðist umfram kostnaðinn fór til söfnunar sem fjölskylda Sigurðar hafði komið á laggirnar. Fjölskyldur beggja þurftu að treysta á framlög einstaklinga til þess að koma þeim heim.
Ingibjörg segir mál Gísla og Sigurðar dæmi um það þegar fólk er ekki með tryggingar. „Það eru þau sem eru að lenda í vandræðum.“
Hún hvetur alla sem ferðast til Evrópu til að hafa evrópska sjúkratryggingakortið meðferðis, en þegar því er framvísað er borgað það sama og þeir borga sem tryggðir eru í viðkomandi landi.
„Ef maður slasast eða veikist utan EES, eins og í Bandaríkjunum til dæmis, þá er það þannig að við borgum í rauninni eins og kostnaðurinn hefði verið hér á landi, sem er oft bara brotabrot, því reikningar frá Bandaríkjunum eru yfirleitt ekki mjög lágir,“ segir Ingibjörg.
„Síðan borgum við ákveðna prósentu af því sem umfram er, og það fer eftir stöðu viðkomandi, námsmenn og lífeyrisþegar fá til dæmis aðeins hærri greiðslur en aðrir, þannig að það eru ákveðnar reglur sem gilda um það.“