Rodrigo Duerte, forseti Filippseyja, varar landsmenn við að þeir gætu verið skotnir til bana fylgi þeir ekki settum reglum um sóttkví í landinu. Í ávarpi til þjóðarinnar ítrekaði hann mikilvægi þess að íbúar landsins væru samvinnuþýðir og héldu sig heima við til að hefta útbreiðslu COVID-19 faraldursins.

Fyrirmæli Duerte til lögreglu og hers landsins í sama ávarpi voru að skjóta fólk sem væri til ama. „Ef það kemur upp staða þar sem fólk berst á móti ykkur og þið eruð í hættu, skjótið það til bana,“ sagði forsetinn.

„Er það skilið? Dauð í stað þess að vera til vandræða. Ég mun jarða ykkur.“

Heimilislausum hefur verið safnað saman í íþróttahús og samkomustaði vegna aðgerða stjórnvalda gegn COVID-19 faraldrinum.
Fréttablaðið/Getty

Matarskortur í fátækrahverfum

Ummælin komu stuttu eftir að fregnir bárust af því að íbúar fátækrahverfis í höfuðstaðnum Manila mótmæltu skorti á mataraðstoð frá yfirvöldum í faraldrinum. Mótmælendur voru sumir hverjir handteknir í kjölfarið og voru einhverjir eftirmálar hjá lögregluyfirvöldum vegna málsins.

Yfir 2600 manns hafa greinst með COVID-19 kórónaveiruna í landinu til þessa og fjölgar nýsmitum um hundruði dag hvern. Rúmlega hundrað manns hafa látist af völdum veirunnar í landinu og fer sú tala hækkandi með hverjum degi.

Heilbrigðisstarfsfólk ofsótt

Komið hafa upp tilvik þess að ráðist sé á heilbrigðisstarfsfólk í landinu og því meinaður aðgangur að í búðir og verslanir vegna ótta við að það dreifi sjúkdómnum víðar. Forsetinn fordæmdi atvikin í ávarpinu og fyrirskipaði því að slík hegðun skyldi stöðvuð tafarlaust.

Um væri að ræða alvarlegan glæp sem yrði ekki liðinn hjá yfirvöldum. Duerte hefur í gegnum tíðina vakið heimsathygli fyrir stefnu sína í stríðinu gegn eiturlyfjum, en í landinu eru fíkniefnasalar réttdræpir og fer lögregla mikinn um stræti stórborga landsins.