„Ég held við megum ekki gera of mikið úr því að fólk sé allt í al­gjörri ó­vissu um fram­gang sinna mála hjá réttar­kerfinu. Auð­vitað verður brugðist við þessu,“ sagði Björg Thoraren­sen, prófessor í lög­fræði, í Morgunút­varpi Rásar 2 í morgun. 

Björg var til við­tals vegna niður­stöðu Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu (MDE) þess efnis að ís­lenska ríkið hafi gerst brot­legt við skipan dómara við Lands­rétt, og af­sagnar Sig­ríðar Á. Ander­sen sem dóms­mála­ráð­herra í fram­haldinu. Lands­réttur hefur frestað öllum sínum málum út vikuna vegna málsins og hafa á­hyggju­raddir verið uppi meðal máls­aðila og lög­manna. 

Að­spurð sagði Björg það yfir­drifna lýsingu að halda því fram að öll mál sem dómararnir fjórir sem skipaðir voru í and­stöðu við niður­stöðu hæfnis­nefnar séu í upp­námi. Brugðist verði við þessu líkt og öðru, en að eðli­legt verði að þykja að dómararnir fjórir kveði ekki upp dóma fyrr en niður­staða fæst í málið. 

Viðbrögð víða mjög hörð

„Ég held að það sé ekki ó­eðli­legt að Lands­réttur gefi sér alla­vega nokkra daga til þess að fara yfir dóminn,“ sagði hún. Þá standi þeir dómar sem nú þegar hafi verið kveðnir upp. 

„Þeir standa að sjálf­sögðu [...] enda eru dómar Mann­réttinda­dóm­stólsins ekki hluti af ís­lenska réttar­kerfinu. Það er hins vegar mögu­leiki, og er getið um það sér­stak­lega í til­viki kæranda í þessu máli, að hann eigi að geta krafist endur­upp­töku á sínu máli,“ sagði hún og bætti við að hún telji það ó­lík­legt að endur­upp­töku­beiðnirnar verði margar. 

Þá sagði hún mikil­vægt að líta á málið með yfir­veguðum hætti. 

„Maður hefur svo sem heyrt að við­brögð séu víða mjög hörð og lýsingar orð sem eru notuð eru sterk til þess að lýsa á­standinu. En ég tel að þessi dómur sé vissu­lega veru­lega mikil­vægur og það þarf að bregðast við honum, en mér finnst líka mikil­vægt að það sé gert af mikilli yfir­vegun og það sé farið vel yfir dóminn. Það sé ekki verið að bregðast við honum um­fram það sem megi á­lykta úr niður­stöðu dómsins,“ sagði Björg.