Nokkrir aðilar í litlum og sjálfstæðum rekstri segjast lenda á milli skips og bryggju við að uppfylla ekki skilyrði fyrir tekjufallsstyrki og viðspyrnustyrki ríkisstjórnarinnar.

Sigurður Jónsson sem rekur lansetrið Ground Zero eða Gzero Gaming, sem hefur verið mikilvægur vettvangur í tölvuleikjasenunni og rafíþróttum, segir ljóst að úrræðin gagnist aðeins hluta þeirra fyrirtækja sem þurfa á aðstoð a halda vegna afleiðinga kórónaveirufaraldursinns.

„Við náum ekki upp í þessi skilyrði en við þurfum virkilega á þessum styrk að halda til að komast í gegnum þennan faraldur,“ segir Sigurður í samtali við Fréttablaðið.

Ground Zero er nítján ára gamalt fyrirtæki, lifði af hrunið og hefur alltaf verið með sömu kennitölu. Þau hafa misst húsnæðið tvisvar í kjölfar uppbyggingar í miðbænum að sögn Sigurðar en kórónaveirufaraldurinn er það erfiðasta sem þau hafa þurft að glíma við. Sigurður lýsir því eins og fyrirtækið sé í öndunarvél í hryllingsmynd eða dystópískum tölvuleik og skorti súrefni og svo sé skrúfað fyrir reglulega með hertum takmörkunum.

Siggi hjá Ground Zero.

Skilyrði ná ekki yfir versta kaflann

Skilyrði til afgreiðslu umsóknar er að fyrirtæki hafi orðið fyrir að minnsta kosti 40 prósent tekjufalli í sjö mánuði frá 1. apríl til 31. október 2020. Þetta tímabil nær yfir sumarið þegar sóttvarnarreglur voru rýmkaðar og aukið líf færðist tímabundið í atvinnurekstur margra fyrirtækja.

„Við sáum fram á mikið tekjufall í kjölfar þriðju bylgjunnar en þessi styrkveiting miðar bara við þetta tímabil til lok október. Það kom ennþá meiri dýfa hjá okkur eftir þetta tímabil.“

Sigurður segir þetta langtíma-álag. „Húsaleigan og aðrir reikningar bíða ekkert. Þetta tikkar á dráttarvöxum.“

Hreinlega erfitt að horfa upp á slík tilvik

Benedikt S. Benediktsson, lögmaður hjá Samtökum verslunar og þjónustu, segir nokkur fyrirtæki hafa leitað til þeirra. Flest eigi þau sameiginlegt að vera nokkuð nálægt því að uppfylla skilyrði tekjufallsstyrksins en gera það þó ekki í ljósi strangra lagaskilyrða og óheppilegra tímasetninga.

„Þá eru dæmi um fyrirtæki sem hafa þurft að loka að skipun yfirvalda en ekki fengið lokunarstyrki,“ segir Benedikt. Sorglegustu tilvikin eru þegar metnaðarfullir eigendur hafa undirbúið reksturinn nýlegra fyrirtækja vel, horfur verið góðar og þeir lagt allt undir en tapað svo öllu.

„Það á helst við í tilviki lítilla fyrirtækja þar sem eigendur eru hjarta fyrirtækisins. Það má með sanni segja það sé hreinlega erfitt að horfa upp á slík tilvik. Það verður væntanlega nokkuð langt þangað til að eigendurnir geta reynt fyrir sér í fyrirtækjarekstri að nýju auk þess sem staða fólks sem missir aleiguna undir slíkum kringumstæðum snertir mann óneitanlega.“

Meðal þeirra álitamála sem SVÞ hefur skoðað eru:

  • Nýlega stofnuð fyrirtæki hafa átt verulegan á brattan að sækja við að sýna fram á tekjufall á síðasta ári þar sem tekjusaga þeirra fyrir heimsfaraldursins sýnir ekki rétta mynd af tekjumöguleikum þeirra. Þannig hafa t.d. nýlega stofnuð fyrirtæki sem hefur gengið allt í haginn þegar sóttvarnaráðstafanir voru í lágmarki, t.d. síðasta sumar, ekki getað sýnt fram á 40% tekjufall þar sem rekstrarsaga þeirra er stutt. Sum þessara fyrirtækja voru vel fjármögnuð, lítið skuldsett og vel í stakk búin til að standa í rekstri en eru nú á mörkum þess að vera gjaldþrota.
  • Lítil fyrirtæki þar sem eigendur eru helstu starfsmenn gripu í sumum tilvikum til þess ráðs síðasta sumar að fækka starfsgildum í viðleitni til að draga úr rekstrarkostnaði í niðursveiflunni frá mars/apríl 2020 og fram á síðasta haust. Með öðrum orðum greiddu eigendurnir sér ekki laun á tímabilinu. Þar sem fjöldi starfsgilda er hluti af hámarksviðmiðum fjárhæðar tekjufallsstyrks hefur styrkurinn til þeirra litlu numið þrátt fyrir að eigendurnir hafi lagt sig alla fram við að halda starfseminni gangandi.
  • Þá eru dæmi um fyrirtæki sem bjuggu við verulegt tekjufall í mars til maí 2020 og aftur frá október sama ár en fengu mikil viðskipti á tímabilinu frá júní til september 2020. Þar sem 40% tekjufallsskilyrðið er reiknað af meðaltali tekna 1. apríl til 31. október 2020 nemur tekjufallið rétt tæpum 40% en ef nóvember og desember síðastliðnir hefðu verið taldir með í útreikninginn hefði tekjutapið verið á bilinu 50 til 60%.
  • Einnig eru dæmi eru um nýlega stofnuð fyrirtæki sem hafa alfarið þurft að leggja niður starfsemi að skipun yfirvalda en hafa ekki uppfyllt lagaskilyrði lokunarstyrkja vegna þess að þau hafa verið skráð á launagreiðendaskrá en ekki virðisaukaskattsskrá á upphafstímamarki rekstrar samkvæmt lögum um tekjufallsstyrki. Þeim var lokað og bótum heitið í formi tekjufallsstyrkja en lagaskilyrði útiloka bótagreiðslur. Reyndar verður ekki reyndar betur séð en að ströng túlkun Skattsins á upphafstímamarkinu standist vart skoðun en það mun væntanlega reyna á hana á vettvangi yfirskattanefndar.