„Það er búið að vera mikið álag á spítalanum, en sérstaklega bráðamóttökunni síðustu vikuna. Það er enn mikið álag þó það hafi létt frá því sem var á föstudag eða laugardag,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans, í samtali við Fréttablaðið.
Jón Magnús segir að ástæðan sú að nú sé aftur, eins og var fyrir um ári síðan, fjöldi sjúklinga sem bíða þess að komast í innlögn á legudeild.
„Því er minna pláss fyrir nýja einstaklinga sem leita til okkar og af því að starfsfólkið þarf að sinna og hjúkra þeim sem eru að bíða eftir innlögn er meira álag á þeim að sinna því verkefni og að taka á móti nýjum sjúklingum. Tvöfalt álag sem verður til,“ segir Jón Magnús.
Landspítalinn hefur því beint til til fólks að leita til heilsugæslustöðvar í sínu hverfi eða til Læknavaktarinnar.
„Ef fólk er með vægari einkenni eða vægari áverka þá bendum við því að leita til heilsugæslunnar og ef að matið gefur tilefni til að viðkomandi fari á bráðamóttöku þá er þeim vísað áfram til okkar en heilsugæslan hefur bætt sína þjónustu umtalsvert á síðustu árum og getur sinnt fjölda vægari slysa og veikinda,“ segir
Hann átti von á því að það væri álag næstu daga meðan væri verið að vinna úr þessu.
„Þetta er þetta langvinna ástand í átt við það sem var rætt töluvert í fjölmiðlum fyrir ári síðan. Það er enn verið að bíða eftir því að það raungerist að það verði boðin út hjúkrunarrými fyrir 80 til 90 einstaklinga eins og talað var um í fjárlögum fyrir áramót. Það hefur ekki verið gert þótt að það hefði verið sagt að þau ættu að taka til starfa á fyrsta ársfjórðungi. Það þarf fleiri rými fyrir fólk sem hefur lokið sjúkrahúsþjónustu þannig spítalinn geti einbeitt sér að þeim sem þurfa á sérhæfðri þjónustu að halda,“ segir Jón Magnús að lokum.
Hér að neðan má sjá færslu á Facebook-síðu Landspítalans þar sem fólk er hvatt til þess að leita annað en til þeirra ef hægt er og ýmsar leiðbeiningar.
MJÖG LÖNG BIÐ Á BRÁÐAMÓTTÖKU: LEITIÐ TIL LÆKNAVAKTAR EÐA HEILSUGÆSLU EF KOSTUR ER Landspítali vekur athygli á því að...
Posted by Landspítali on Saturday, 9 January 2021