Stöðugur fjöldi fólks greinist nú með CO­VID-19 og er nú helsti söku­dólgurinn Delta-af­brigðið svo­kallaða sem hefur reynst tölu­vert meira smitandi en fyrri af­brigði. Fjóra daga í röð hefur fjöldi smita verið yfir 100 en smit dreifast nú í auknum mæli milli aldurs­hópa, ó­líkt því sem mátti sjá fyrst í bylgjunni þegar yngri ein­staklingar voru helst að greinast.

„Það hefur sýnt sig í fyrri bylgjum að það byrjar kannski í þeim aldurs­hópi sem er mest á ferðinni, eða mest fé­lags­lega virkur í sam­fé­laginu, og kemur svo inn í aðra hópa,“ segir Kamilla Sig­ríður Jósefs­dóttir, stað­gengill sótt­varna­læknis, í sam­tali vð Frétta­blaðið en í­trekar að þær tölur sem við erum núna að sjá séu hærri en í fyrri bylgjum.

„Nú er þetta komið inn í við­kvæma hópa og er mögu­lega að dreifast þar, þá getur verið að við sjáum fleiri ein­stak­linga með al­var­leg veikindi á næstu dögum,“ segir Kamilla enn fremur. Tíu manns eru nú inni­liggjandi á Land­spítala vegna CO­VID en þar sem al­var­leg ein­kenni koma yfir­leitt fram á annarri viku veikinda gæti þeim fjölgað eftir helgina.

Smit hjá þeim sem hafa áður fengið COVID-19

Mjög margir sem hafa greinst undan­farið voru ekki verið í sótt­kví við greiningu sem sýnir mögu­lega að smitrakning sé ekki að ná utan um út­breiðsluna og var brugðist við því með að taka ekki til­lit til bólu­setningar þegar fólk er sent í skikkað í sótt­kví.

„Það er orðið svo­lítið af smitum meðal þeirra sem hafa sögu um CO­VID, það er að týnast meira inn heldur en við höfum séð áður,“ segir Kamilla og bendir á að þeim fjölgi hraðar en gert var ráð fyrir en í heildina er um að ræða færri en 10 ein­stak­linga að svo stöddu.. „Það getur hugsast að það þurfi að hætta að taka til­lit til þeirrar stöðu varðandi sótt­kví.“

Að­spurð um hvort hún telji út­breiðslu veirunnar vera meiri en tölurnar bera vitni um segist hún ekki telja að svo sé. Gífur­legur fjöldi sýna er tekin dag­lega og hefur hlut­fall já­kvæðra sýna verið í kringum fjögur prósent, en þó ekki farið yfir það. „Á meðan að þetta hlut­fall er frekar stabílt þá höfum við kannski ekki stórar á­hyggjur af því að út­breiðslan sé mjög veru­leg í sam­fé­laginu.“

Erum ekki komin yfir það versta

200 manna sam­komu­bann er nú í gildi á landinu öllu auk eins metra reglu og grímu­skyldu á á­kveðnum stöðum og segist Kamilla vona að fjöldi smitaðra og hlut­fall þeirra haldist stöðugur eða lækki með að­gerðunum. Enn á eftir að koma í ljós hvort að­gerðirnar, sem eru í gildi til 13. ágúst beri árangur.

„Við mælum að sjálf­sögðu ekki með til­slökunum nema ef við sjáum fyrir endann á, eða erum komin yfir það versta með þetta á­stand. Við erum ekki komin þangað, við erum að því er virðist á ein­hvers konar flat­neskju hvað fjölda smita varðar,“ segir Kamilla.

Hafið þið á­hyggjur á frekari út­breiðslu eftir verslunar­manna­helgina?

„Að forðast ó­þarfa hópa­myndanir og þrengsl er kannski það mikil­vægasta hvað þessa helgi varðar, en gríman og þessar per­sónu­bundnu sótt­varnir sem við eigum að vera búin að læra nokkuð vel skipta miklu máli, og að sprittið sé alls staðar vel á fyllt.“