Fólk með skerta starfsgetu hefur átt í meiri erfiðleikum með að komast aftur út á vinnumarkaðinn eftir faraldurinn en aðrir. Líkt og annað fólk lenti það í uppsögnum þegar ferðaþjónustan dróst saman og samkvæmt Vinnumálastofnun hefur lítið sem ekkert glæðst í atvinnumálum þessa hóps síðan þá.

Atvinnuleysi náði hámarki í janúar árið 2021 og var þá 11,6 prósent. Með átaki í ráðningarstyrkjum, undir heitinu Hefjum störf, og betri stöðu í faraldrinum, minnkaði atvinnuleysið niður í 5 prósent í október síðastliðnum og hefur haldist nokkuð stöðugt síðan. En þetta eru sambærilegar tölur og voru fyrir faraldurinn. Fólk með skerta starfsgetu hefur hins vegar orðið út undan.

„Þegar atvinnuleysi eykst þá geta þeir sem eru með skerta starfsgetu einnig misst starfið sitt. Þetta er sami vinnumarkaðurinn og samdrátturinn kemur niður á öllum starfsmönnum,“ segir Laufey Gunnlaugsdóttir, deildarstjóri hjá Vinnumálastofnun. „Átak stjórnvalda Hefjum störf gerði samkeppnisstöðu þessa hóps líka að einhverju leyti erfiðari en ella þar sem allir atvinnuleitendur gátu fengið ráðningarstyrk með sér í starf.“

Atvinnutenglum fjölgað

Til að bregaðst við þessu hefur Vinnumálastofnun hvatt ríkisstofnanir og sveitarfélög til þess að auka atvinnutækifæri fyrir þennan hóp.

Samkvæmt Laufeyju er einnig stefnt að öflugu kynningarstarfi í samstarfi við atvinnulífið til að skapa störf. Þegar hafi Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, styrkt ráðningu atvinnutengla sem hafa það hlutverk að greiða fyrir ráðningum fólks með skerta starfsgetu.

Laufey segir Vinnumálastofnun bjóða upp á sértæka ráðgjöf og vinnumiðlun fyrir öryrkja og þá sem búa við skerta starfsgetu. Helstu markmiðin séu að styðja atvinnuleitendur til að komast á almennan vinnumarkað. Í fyrra sótti 391 einstaklingur með skerta starfsgetu um þjónustu á landinu öllu. „Þetta er fjölbreyttur hópur sem hefur ýmiss konar færni og áhugasvið,“ segir hún.

Vinnusamningum hefur fækkað

Vinnumálastofnun er einnig umsjónaraðili fyrir vinnusamning öryrkja, sem er endurgreiðslusamningur. Það þýðir að Vinnumálastofnun endurgreiðir atvinnurekanda 75 prósent af kjarasamningsbundnum launum fyrstu tvö árin. Fjöldi þessara samninga var 970 fyrir faraldur en er 913 nú.

Laufey ítrekar þó að aðeins hluti af öryrkjum og þeim sem eru með skerta starfsgetu nýti slíkan vinnusamning. Á Suðurnesjum, þar sem atvinnuleysið er mest, eru 50 með samning en 64 bíða eftir atvinnutækifæri. Vinnumálastofnun hefur ekki nákvæmar tölur um hversu margir öryrkjar eru á vinnumarkaði án samnings.