Dag­leg neysla á­vaxta og græn­metis er mark­tækt lægri hjá því fólki sem er með fjár­hags­á­hyggjur, þetta kemur fram í rann­sókn sem em­bætti land­læknis sem birt var í nýju tölu­blaði Talna­brunns, frétta­bréfs land­læknis um heil­brigðis­upp­lýsinga, sem gefið var út í dag.

Undan­farin ár hefur land­læknir vaktað helstu á­hrifa­þætti heil­brigðis og vel­líðanar. Mark­miðið með því er að fylgjast með heilsu­hegðun og líðan Ís­lendinga yfir tíma og meta þörf fyrir að­gerðir.

Þegar dag­leg neysla á­vaxta og græn­metis er skoðuð meðal þeirra sem eiga erfitt með að láta enda ná saman sést mark­tækt minni neysla borið saman við hópinn sem á frekar eða mjög auð­velt með að ná endum saman.

Frá árinu 2016 hefur verið spurt í rann­sókninni hversu erfitt eða auð­velt fólk á með að ná endum saman fjár­hags­lega fyrir sig og fjöl­skyldu sína.

Um helmingur, 49 prósent, þeirra sem eiga erfitt með að láta enda ná saman borðar græn­meti á hverjum degi. Saman­borið við 61 prósent þeirra sem eiga auð­velt með að ná endum saman.

Þegar skoðuð er sama spurning út frá á­vöxtum lækkar talan enn frekar. Þrjátíu og sex prósent þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman borða á­vexti dag­lega, saman­borið við 49 prósent þeirra sem eiga auð­velt með að ná endum saman.

Al­mennt dró mark­tækt úr neyslu á­vaxta á milli áranna 2019 og 2021 meðal þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman, en sam­dráttur sést ekki í öðrum hópum.

Lítil breyting á neyslu á­vaxta og græn­metis á milli ára

Neysla á á­vöxtum og græn­meti dag­lega breyttist lítið á milli áranna 2020 og 2021. Um helmingur lands­manna borðaði á­vexti dag­lega og sex af hverjum tíu borðaði græn­meti dag­lega.

Elsti aldurs­hópurinn, 55 ára og eldri, stóð sig best í á­vaxta­neyslu, 57 prósent borðaði þá dag­lega. Sama saga gildir ekki um yngsta aldurs­hópinn og miðju­hópinn í aldri, 18 til 34 ára og 35 til 54 ára, á­samt þeim sem eiga erfitt með að ná endum saman og körlum al­mennt borðuðu þau minnst af á­vöxtum.