Dagleg neysla ávaxta og grænmetis er marktækt lægri hjá því fólki sem er með fjárhagsáhyggjur, þetta kemur fram í rannsókn sem embætti landlæknis sem birt var í nýju tölublaði Talnabrunns, fréttabréfs landlæknis um heilbrigðisupplýsinga, sem gefið var út í dag.
Undanfarin ár hefur landlæknir vaktað helstu áhrifaþætti heilbrigðis og vellíðanar. Markmiðið með því er að fylgjast með heilsuhegðun og líðan Íslendinga yfir tíma og meta þörf fyrir aðgerðir.
Þegar dagleg neysla ávaxta og grænmetis er skoðuð meðal þeirra sem eiga erfitt með að láta enda ná saman sést marktækt minni neysla borið saman við hópinn sem á frekar eða mjög auðvelt með að ná endum saman.
Frá árinu 2016 hefur verið spurt í rannsókninni hversu erfitt eða auðvelt fólk á með að ná endum saman fjárhagslega fyrir sig og fjölskyldu sína.
Um helmingur, 49 prósent, þeirra sem eiga erfitt með að láta enda ná saman borðar grænmeti á hverjum degi. Samanborið við 61 prósent þeirra sem eiga auðvelt með að ná endum saman.
Þegar skoðuð er sama spurning út frá ávöxtum lækkar talan enn frekar. Þrjátíu og sex prósent þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman borða ávexti daglega, samanborið við 49 prósent þeirra sem eiga auðvelt með að ná endum saman.
Almennt dró marktækt úr neyslu ávaxta á milli áranna 2019 og 2021 meðal þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman, en samdráttur sést ekki í öðrum hópum.
Lítil breyting á neyslu ávaxta og grænmetis á milli ára
Neysla á ávöxtum og grænmeti daglega breyttist lítið á milli áranna 2020 og 2021. Um helmingur landsmanna borðaði ávexti daglega og sex af hverjum tíu borðaði grænmeti daglega.
Elsti aldurshópurinn, 55 ára og eldri, stóð sig best í ávaxtaneyslu, 57 prósent borðaði þá daglega. Sama saga gildir ekki um yngsta aldurshópinn og miðjuhópinn í aldri, 18 til 34 ára og 35 til 54 ára, ásamt þeim sem eiga erfitt með að ná endum saman og körlum almennt borðuðu þau minnst af ávöxtum.