Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að sterk fylgni sé á milli dánartíðni vegna COVID-19 og D-vítamínsskorts.

Rannsakendur tóku eftir því að sjúklingar í ríkjum með háa COVID-19 dánartíðni, á borð við Ítalíu, Spán og Bretland, voru með minni D-vítamínbússkap en sjúklingar í löndum sem fóru ekki eins illa út úr faraldrinum.

Ef marka má niðurstöður þeirra, sem byggja á gögnum frá tíu ríkjum, má ætla að þar sé ekki um tilviljun að ræða.

Skýringuna ekki að finna í aldri þjóða

Vadim Backman, prófessor í lífeindaverkfræði, leiddi rannsóknina og segir ekki vera útlit fyrir að munur á heilbrigðiskerfum, aldursdreifing þjóða eða skimunarhlutfall hafi veigamikil áhrif á tíðni dauðsfalla vegna COVID-19.

„Heilbrigðiskerfið í norðurhluta Ítalíu er meðal þeirra bestu í heiminum.“

Hann segir mun á COVID-19 dánartíðni enn vera til staðar ef bornir eru saman sömu aldurshópar eða ríki sem hafi skimað álíka hátt hlutfall íbúa fyrir kórónaveirunni.

Þess í stað virðist vera marktæk fylgni milli dánarhlutfalls og D-vítamínsskorts.

Er þetta talið skýrast af því að ef fólk búi við slíkan skort sé ónæmiskerfi þeirra líklegra til að bregðast við sýkingu með ýktu svari sem valdi skaða.

Virðist vera meginorsök COVID-19 sjúklinga

Slíkt geti leitt til óeðlilega mikillar losunar á frumuboðum (e. cytokine storm) sem geti ollið miklum lungnaskaða og leitt til dauða.

„Þetta er það sem virðist drepa meirihluta COVID-19 sjúklinga,“ er haft eftir Backman.

Aftur á móti sé D-vítamín þekkt fyrir að efla ónæmiskerfið og koma í veg fyrir að það verði hættulega ofvirkt.

Þrátt fyrir þessar niðurstöður vara rannsakendurnir við því að fólk taki D-vítamín í of miklu magni því slíkt geti leitt til aukaverkanna.

Að sögn Backman er þörf á frekari rannsóknum til að finna út úr því hvernig sé best að nota vítamínið til að verja fólk gegn áhrifum COVID-19.