Þeir sem sæta smit­gát eftir smitrakningu vegna Co­vid-19 þurfa ekki lengur að fara í hrað­próf við upp­haf og lok smit­gátar frá og með morgun­deginum. Ein­staklingar í ein­angrun fá jafn­framt tak­markaða heimild til úti­veru. Ein­staklingar í smit­gát þurfa að fara gæti­lega í viku eftir upp­haf hennar og fara í PCR-próf finni þeir fyrir ein­kennum.

Frá þessu er greint á vef Stjórnar­ráðsins og hefur Willum Þór Þórs­son stað­fest reglu­gerð þessa efnis. Eru breytingarnar gerðar í sam­ræmi við til­lögur Þór­ólfs Guðna­sonar sótt­varna­læknis sem hann sendi í minnis­blaði til ráð­herra.

Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir lagði til breytingarnar í minnis­blaði til heil­brigðis­ráð­herra.
Mynd/Almannavarnir

Þar kemur fram að af þeim tæp­lega 16.500 ein­stak­lingum sem sættu smit­gát á fyrstu 16 dögum ársins greindist einungis eitt prósent með Co­vid-smit eftir próf. Stór hluti þessa hóps var börn á grunn­skóla­aldri.

„Líkt og verið hefur mun rakningar­teymi leggja mat á hverjir skuli sæta sótt­kví og hverjir smit­gát með hlið­sjón af því hve mikið hver og einn hefur verið út­settur fyrir smiti. Hjá þeim sem út­setningin er metin ó­veru­leg gilda ó­breyttar reglur um smit­gát, að öðru leyti en því að smit­gát stendur nú yfir í 7 daga og ekki er skylt að taka hrað­próf í upp­hafi eða við lok hennar. Ef ein­stak­lingur í smit­gát finnur fyrir ein­kennum sem bent geta til Co­vid-19 skal hann fara í PCR-próf“, segir á vef Stjórnar­ráðsins.

Þeir sem eru í smit­­gát þurfa að fara um­­­svifa­­laust í PCR-próf finni þeir til ein­­kenna um Co­vid-smit.
Fréttablaðið/Anton Brink

Þeir sem eru í smit­gát mega fara í vinnuna og skóla og sinna nauð­syn­legum erindum en hafa í huga að smit er ekki úti­lokað og því sýna að­gát, gæta vel að per­sónu­bundnum sótt­vörnum og fara um­svifa­laust í PCR-próf finni þeir til ein­kenna um Co­vid-smit. Tak­marka skal sam­neyti við við­kvæma ein­stak­linga er fólk er í smit­gát.

Sam­kvæmt þeim reglum sem nú gilda um ein­angrun má fólk fara út á svalir eða í einka­garð við heimili sitt ef það hefur heilsu til. Með breytingunni sem tekur gildi á morgun má það fara í göngu­ferðir í ná­grenni heimilis síns en passa að halda tveggja metra fjar­lægð frá öðrum og ekki fara á fjöl­farin svæði. Miðað er við tvær göngu­ferðir á dag, ekki lengri en hálf­tíma. Full­orðnir sem dvelja í sótt­varna­húsum geta þó ekki gert það en slíkt verður hins vegar í boði fyrir börn sem þar dvelja.

Full­orðnir sem dvelja í sótt­varna­húsum fá ekki að fara í göngu­ferðir.