Tveir voru hand­teknir í mið­bænum klukkan hálf ellefu í gær­kvöldi eftir að lög­regla stöðvaði bíl en áður hafði verið til­kynnt að bílnum sem um ræðir hafi verið stolið. Öku­maður bílsins reyndist ekki vera með öku­réttindi en hann er einnig grunaður um akstur undir á­hrifum og vörslu fíkni­efna.

Þá voru tveir aðrir hand­teknir fyrir utan veitinga­stað í mið­bænum eftir að til­kynnt var um líkams­á­rás stuttu fyrir klukkan tíu í gær. Þeim var síðan sleppt að lokinni skýrslu­töku. Stuttu eftir klukkan tvö í nótt var lög­regla síðan kölluð til vegna slags­mála inni á skemmti­stað í mið­bænum.

Neituðu að segja til nafns

Óskað var síðan eftir að­stoð lög­reglu korteri í ellefu í gær­kvöldi vegna ein­stak­lings í annar­legu á­standi fyrir utan veitinga­stað í mið­bænum en hann gat ekki gefið upp hver hann væri. Hann gistir nú í fanga­geymslu lög­reglu þar til hægt verður að ræða við hann.

Skömmu eftir klukkan tvö í nótt óskaði leigu­bíl­stjóri eftir að­stoð lög­reglu vegna far­þega sem hafði sofnað ölvunar­svefni í bílnum. Þegar lög­regla vakti far­þegann neitaði hann að segja til nafns eða gefa upp kenni­tölu. Þá neitaði hann einnig að borga fyrir farið og var hand­tekinn af lög­reglu en honum sleppt þegar búið var að stað­festa hver hann væri.

Ölvunarakstur, rúðubrot og tilkynning um hávaða

Ýmis önnur mál komu á borð lög­reglu í mið­bænum í nótt, til að mynda ölvunar­akstur og til­kynning um há­vaða. Á þriðja tímanum í nótt var síðan til­kynnt um rúðu­brot og reyndi hinn grunaði að flýja lög­reglu. Honum tókst þó ekki að stinga lög­regluna af og var hann hand­tekinn.

Einnig var óskað eftir að­stoð á skemmti­stað um þrjú leitið vegna ein­stak­lings sem hafði skorið sig á gler­broti sem hann steig á. Þegar lög­regla mætti á svæðið voru starfs­menn skemmti­staðarins búnir að búa um sárið og óskaði ein­stak­lingurinn ekki eftir frekari að­stoð.