Styrkur svifryks er hár í Reykjavík í dag og eru líkur á því að það fari yfir sólarhringsheilsuverndarmörk. Því hvetja borgaryfirvöld almenning til að draga úr notkun einkabílsins við þessar aðstæður, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta.

Þá ættu börn og þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og að forðast útivist í nágrenni stórra umferðargatna.

Fram kemur í tilkynningu frá borginni að klukkustundargildi svifryks við Grensásveg hafi náð 86 míkrógrömm á rúmmetra klukkan 13 í dag og farið yfir 100 míkrógrömm á rúmmetra á háannatíma umferðar í morgun.

Í mælistöð á gatnamótum Bústaðarvegar og Háaleitisbrautar var klukkutímagildið á sama tíma 58 míkrógrömm á rúmmetra.

„Nú er hægur vindur og kalt, götur þurrar og ekki líkur á úrkomu í dag svo líklegt er að styrkur svifryks fari yfir sólarhringsheilsuverndarmörk sem eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Gert er ráð fyrir svipuðu veðri næstu daga og því líkur á að styrkur svifryks verði áfram hár.“ 

Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á loftgæði.is.