Ekki hafa borist margar kvartanir vegna fyrirtækja sem talin eru hafa hækkað verð í aðdraganda svarta föstudagsins svokallaða, að sögn Breka Karlssonar, formanns Neytendasamtakanna. Hann segist ekki geta sagt að svo stöddu hvort fleiri eða færri tilkynningar hafi borist í ár en í fyrra.

„Aðalmunurinn núna og í fyrra er að við höfum orðið vör við auglýsingar frá smálánafyrirtækjunum, sem við urðum ekki í fyrra,“ segir Breki.

Smálánafyrirtækin með sérstök tilboð

Breki segir að smálánafyrirtækin hafi jafnvel verið með sérstök tilboð í aðdraganda dagsins, og gagnrýnir að verið sé að þrýsta fólki til að taka lán til að kaupa einhverja hluti á afslætti „sem hugsanlega brennur þá bara upp bara upp í kostnaði við lántökuna.“ Þetta eigi ekki eingöngu við um hefðbundnu smálánafyrirtækin „heldur einnig þessi íslensku, sem bjóða ekki ólögleg lán, en hraðlán.“ Hann segir þetta til dæmis eiga við um svokallaðan Jólareikning Netgíró og það sem hann kallar „smálán light“.

Breki segir einnig að verið sé að hvetja til óhóflegrar neyslu. „Það er verið að hvetja fólk til að kaupa hluti sem það vantar ekki, fyrir pening sem það á ekki. Þó að þetta sé ekki ólöglegt þá er þetta áhyggjuefni og umhugsunarefni.“

Tryggvi segir að mikilvægt sé að neytendur séu meðvitaðir um réttindi sín.

Mikilvægt að koma ábendingum til Neytendastofu

Í samtali við Fréttablaðið segir Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu, að eftir að hafa tekið stöðuna með samstarfsfólki þá virðist ástandið vera heldur betra en í fyrra. „En að því sögðu þá kemur oft eftir á meira af ábendingum.“

Neytendasamtökin benda fólki á að koma ábendingum áleiðis til Neytendastofu. Tryggvi segir að mikilvægt sé að neytendur séu meðvitaðir um réttindi sín. Vegna þess mikla fjölda tilboða sem séu í kringum svarta föstudaginn sé erfitt að hefja frumkvæðisathugun á þeim öllum. „Það er mikilvægt að senda inn ábendingar og við skoðum allar ábendingar.

Að sögn Tryggva geta neytendur ekki leitað réttar síns vegna fyrirtækja sem stunda viðskiptahætti á borð við þá að hækka verð rétt fyrir útsölur. Það kunni þó að breytast í náinni framtíð. Neytendastofa geti aftur á móti sektað fyrirtæki fyrir allt að tíu milljónum króna vegna ólöglegra viðskiptahátta. Það gerist aftur á móti sjaldan þar sem flest fyrirtæki sýni mikinn samstarfsvilja þegar Neytendastofa sendir þeim ábendingar.