Fólk 60 ára og eldri og fólk með undirliggjandi sjúkdóma er hvatt til að þiggja örvunarskammt af bóluefni við Covid-19 ef fjórir mánuðir eða meira eru liðnir frá síðustu bólusetningu, þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá sóttvarnarlækni og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
„Örvunarbólusetning verndar fólk fyrir alvarlegum afleiðingum Covid-19 en aldur er einn stærsti áhættuþátturinn fyrir alvarlegum afleiðingum sjúkdómsins,“ segir í tilkynningunni.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sér um bólusetningar á höfuðborgarsvæðinu en heilbrigðisstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins munu annast bólusetningar fyrir sína skjólstæðinga.
Bóka þarf tíma í bólusetningu í gegnum mínar síður á Heilsuveru eða í gegnum síma hjá hverri heilsugæslustöð. Þá er einnig hægt að bóka tíma hjá Upplýsingamiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í síma 513-1700 og í gegnum netspjall Heilsuveru. Misjafnt er milli stöðva á hvaða tímum boðið er upp á bólusetningar og er hægt að finna nánari upplýsingar á vefsíðu hverrar heilsugæslustöðvar eða við tímabókun.
Upplýsingar um aukaverkanir vegna Covid-19 bólusetningar er að finna á vefnum covid.is.