Opið var fyrir að­gengi að gos­stöðvunum í Geldinga­dölum í gær en þeim var lokað klukkan 21 í kvöld og verður búið að rýma svæðið fyrir mið­nætti. Steinar Þór Kristins­son, í svæðis­stjórn al­manna­varna, greinir frá því að til­tölu­lega fáir hafi sótt gos­stöðvarnar í dag.

„Mér skilst að það hafi bara verið ró­legt, það var svona lítil traffík, bara kalt og blautt. Veðrið hefur spilað svo­lítið inn í þannig það var ekki mikið af fólki á ferðinni ,“ segir Steinar í sam­tali við Frétta­blaðið.

Þrátt fyrir að margir hafi ekki sótt gos­stöðvarnar í dag komu upp til­felli þar sem vísa þurfti fólki frá þar sem það var illa búið. Að sögn Steinars hefur það í­trekað komið upp frá því að gosið hófst og í þeim til­fellum hafi fólki ein­fald­lega verið bent á það.

„Fólk er kannski ekki alveg að gera sér grein fyrir því hvaða að­stæður það er að fara út í þarna, þarna ertu kominn út í ó­byggðir og upp til fjalla. Þó að þetta séu ekki svona fjall­garðar eins og maður þekkir á Austur- eða Norður­landi, að þá er þetta erfiðar að­stæður,“ segir Steinar.

Brugðið þegar hann sá fólk við hraunið

Þá sé mikið um það að fólk sé að fara inn á hættu­svæði, þar sem fólk getur verið í bráðri hættu vegna skyndi­legra at­burða. Hætta er þar á að fleiri gos­sprungur geti opnast án fyrir­vara og því gæti fylgt skyndi­legt og hratt hraun­flæði sem erfitt sé að forðast.

Sjálfur segir Steinar að honum hafi brugðið þegar hann fór að gos­stöðvunum í gær þar sem fólk var alveg uppi við hraunið. „Þegar maður er farinn að sjá í beinni út­sendingu á RÚV þyrlu lenda þarna inni á þessum hættu­svæðum og fólk streymir út úr þeim, þá svona fara að renna á mann tvær grímur.“

„Við þurfum ein­hvern veginn að halda þessu betur á lofti, með þessi hættu­svæði og af hverju við erum með þau, þetta er bæði vegna gasmengun og líka þá geta sprungur opnast með stuttum fyrir­vara, eins og hefur sýnt sig,“ segir Steinar.

Gosið ákveðinn segull

Að sögn Steinars þarf lík­lega að ein­blína meira á það hvaða á­hrif gasmengunin hefur á fólk og vísar til þess að fólk í fínu formi hafi komið ör­magna til baka, og jafn­vel þurft að leita sér læknis­að­stoðar. „Við erum farin að líta svo­lítið al­var­legri augum á þessa eitrun, það virðist vera að fólk sé að fá ein­kenni og lenda í vand­ræðum út af þessu.“

Steinar tekur þó fram að lang­flestir fylgi þeim til­mælum sem gefin hafa verið út en það eigi til með að gleyma því þegar að gosinu er komið. „Þetta er mann­leg hegðun, þú sérð ein­hvern standa við hraunið og þá ferð þú líka,“ segir Steinar. „Fólk upp til hópa hlustar á það sem við höfum að segja en það vill gleyma sér, það skilur þegar við erum að tala en svo er þetta bara segull.“

„Ég hugsa að menn fari að ein­blína meira á þessa hluti, vera sterkari í sínum for­vörnum. Okkur líkar miklu betur að vera í for­vörnum, segja fólki til og vara það við, heldur en að vera að sækja fólk sem hefur komið sér í ó­göngur.“