Mikil­vægt er að fólk geri ráð­stafanir til að draga úr tjóni vegna jarð­skjálfta. Hilmar Harðar­son, for­maður Samiðnar, Sam­bands iðn­fé­laga, segir ráð­legt að fólk leiti að­stoðar iðnaðar­manna með réttindi til að tryggja að hlutir séu festir rétt og vel og vatns­inn­tak og hita­veitu­ofnar séu í lagi.

„Það er gott ráð að fólk leiti að­stoð fag­lærðra iðnaðar­manna til fara yfir hús­næði og gera fyrir­byggjandi ráð­stafanir vegna jarð­skjálfta sem ganga nú yfir suð­vestur­hluta landsins. Mikil­vægt er að láta festa hús­gögn, svo sem hillur og skápa við gólf eða veggi. Þá er gott að láta iðnaðar­menn fara yfir stað­setningu vatns­inn­taks og raf­magns­tafla og tryggja hita­veitu­ofna til að koma í veg fyrir leka. Einnig er ráð að fá iðnaðar­menn í heim­sókn til að skoða hvort skemmdir hafi orðið í þeim skjálftum sem hafa gengið yfir, til dæmis steypu­skemmdir,“ segir Hilmar.

Þungir hlutir eigi ekki að vera ofarlega

Hann segir að ekki sé mælt með að þungir munir séu geymdir ofar­lega í hillum og að þungur borð­búnaður og hlutir séu geymdir í neðri skápum, helst lokuðum. Einnig er gott að hafa barna­læsingar á skápum.

„Mikil­vægt er að festa myndir og ljósa­krónur í lokaðar lykkjur og tryggja að þungir hlutir geti ekki fallið á svefn­stað. Byrgja skal fyrir glugga eða setjið öryggis­filmu á rúður til að koma í veg fyrir skæða­drífu gler­brota ef rúða brotnar. Fag­lærðir iðnaðar­menn sjá um allt sem kemur þessu við og fara vel yfir allt varðandi öryggi á heimilinu,“ segir Hilmar og minnir á að nú sé rétti tíminn til að láta yfir­fara hús­næði þar sem fólk á rétt á endur­greiðslu á virðis­auka­skatti vegna á­taksins Allir vinna en endur­greiðslan var hækkuð úr 60 prósent í 100 prósent til að bregðast við niður­sveiflu í efna­hags­lífinu af völdum CO­VID-19.

Hilmar bendir á að heimild til endur­greiðslu á virðis­auka­skatti sé jafn­framt víð­tækari á þessu tíma­bili en áður og taki meðal annars til frí­stunda­hús­næðis, mann­virkja í eigu til­tekinna fé­laga­sam­taka og bíla­við­gerða eins og Sam­iðn lagði mikla á­herslu á.