Dregið hefur úr fjölda banaslysa erlendra ferðamanna í umferðinni hér á landi en fjöldi þeirra sem slasast alvarlega helst í stað á milli ára.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu í Mælaborði Ferðaþjónustunnar sem sýnir umferðarslys erlendra ferðamanna á Íslandi undanfarin ár.

Frá árinu 2002 til 2021 hefur þeim ferðamönnum, sem slasast á hverja tíu þúsund ferðamenn sem hingað koma, fækkað.

Bílveltur og útafakstur eru helstu orsakir þess að ferðamenn slasast í umferðarslysum á Íslandi.

Ef horft er til slysatíðni og fjölda slasaðra á hverja tíu þúsund ferðamenn á tímabilinu 2005 til 2021 er hún hæst á meðal fólks frá Asíu og þar á eftir hjá Evrópubúum.

Kínverjar tróna á toppnum yfir mestan fjölda slasaðra ef horft er til einstakra þjóða og á eftir þeim koma Spánverjar og Ítalir.

Minnstur er fjöldi slasaðra frá Bretlandi, Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð.