Kona var í dag sýknuð í Héraðsdómi Reykjaness af ákæru sem varðaði kynferðisbrot sem beindust gegn eiginmanni hennar, nú fyrrverandi eiginmanni, og annari konu. Henni var gefið að sök að hafa aflað sér nektarmynda af þeim tveimur og dreift þeim.

Myndirnar sem um ræðir sýndu typpi mannsins og brjóst konunnar, en í ákæru segir að myndunum hafi verið dreift án þeirra samþykkis, til að særa blygðunarsemi þeirra.

Þær voru sendar á eiginmanninn og tvær aðrar konur í tölvupósti sem bar yfirskriftina: „Þú ert viðbjóður“, en í honum stóð:

„Vona að þín hægri hönd og helsti ráðgjafi [ein þeirra sem fékk myndina] geti hjálpað þér. Þú ert djöfull í mannsmynd og berð hvorki virðingu fyrir mér né strákunum þínu (sic). Að fá þetta í hendurnar er hryllingur og það er meira til sem kemur út á næstunni og fólk fær að sjá hvaða mann þú hefur að geyma.“

Í dómnum er því lýst að konan hafi aflað sér myndanna í tölvu mannsins á sameiginlegum vinnustað þeirra hjónanna. Þar hafi hún komist yfir samskipti mannsins og hinnar konunnar, sem inniheldur myndirnar sem um ræðir.

Hún hafi síðan prentað út hundrað blaðsíður af umræddum samskiptum og sent á manninn og konurnar tvær. Konan gekkst við því sem henni var gefið að sök að einhverju leiti, en vildi þó meina að nektarmyndirnar hefðu farið með fyrir slysni, sjálf hafi hún verið í uppnámi yfir samskiptunum og ætlað að senda þau.

Fyrir dómi sagðist hún hafa sent póstinn í mikilli geðshræringu vegna skrifa mannsins um son þeirra.

Ákæruvaldið vildi meina að um lostugt afhæfi væri að ræða, en dómurinn féllst ekki á það, þótt honum þætti athæfi konunnar ósmekklegt, meiðandi og af kynferðislegum toga. Þar af leiðandi var konan sýknuð.