María Erics­dóttir Panduro segir að það hafi gengið vel að safna mat fyrir heimilis­lausa. Í ár mun Að­vent­kirkjan í Reykjavík vera opin og verður matur í boði fyrir gesti og gangandi í kvöld, þeim að kostnaðar­lausu.

„Það hefur gengið rosa­lega vel að safna fyrir kvöldið. Ég hef fengið stuðning aðal­lega frá ein­stak­lingum. Fólk er ein­stak­lega gjaf­milt um há­tíðirnar,“ segir María.

„Ég hef fengið nokkrar gjafakörfur, fólk hefur komið með mat og jóla­gjafir sem þau hafa fengið frá fyrir­tækjunum sínum,“ segir María.

Þegar blaða­maður náði tali af Maríu var hún að stíga um borð í flug­vél frá Dan­mörku. Hún segir að móðir sín hafi verið dug­leg að elda og undir­búa fyrir jólin á meðan hún er í burtu.

„Mamma er búin að vera elda í tvo daga, það er alveg rosa­lega mikið af mat til fyrir kvöldið,“ segir María.

Jóla­dag­skráin í kirkjunni er frá sex til sjö í kvöld, en eftir það verður kirkjan opin fram eftir kvöldi.