María Ericsdóttir Panduro segir að það hafi gengið vel að safna mat fyrir heimilislausa. Í ár mun Aðventkirkjan í Reykjavík vera opin og verður matur í boði fyrir gesti og gangandi í kvöld, þeim að kostnaðarlausu.
„Það hefur gengið rosalega vel að safna fyrir kvöldið. Ég hef fengið stuðning aðallega frá einstaklingum. Fólk er einstaklega gjafmilt um hátíðirnar,“ segir María.
„Ég hef fengið nokkrar gjafakörfur, fólk hefur komið með mat og jólagjafir sem þau hafa fengið frá fyrirtækjunum sínum,“ segir María.
Þegar blaðamaður náði tali af Maríu var hún að stíga um borð í flugvél frá Danmörku. Hún segir að móðir sín hafi verið dugleg að elda og undirbúa fyrir jólin á meðan hún er í burtu.
„Mamma er búin að vera elda í tvo daga, það er alveg rosalega mikið af mat til fyrir kvöldið,“ segir María.
Jóladagskráin í kirkjunni er frá sex til sjö í kvöld, en eftir það verður kirkjan opin fram eftir kvöldi.