Alma Möller land­læknir greindi frá því á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag að gríðar­leg að­sókn væri í sýna­tökur á vegum Heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins og hafa tímar sem fólk gat sjálft bókað í gegnum heilsu­veru.is bókast upp fljótt en hún hvatti fólk til að bóka ekki sýna­töku nema þörf sé á.

„Við viljum við biðja þá sem ekki eru með ein­kenni og hafa ekki rök­studdan grun um að hafa orðið fyrir smiti að bóka ekki, eða biðja um, sýna­töku að svo stöddu,“ sagði Alma og biðlaði sér­stak­lega til fyrir­tækja um að krefjast ekki skimunar fyrir starfs­fólk nema að ósk smitrakningar­teymisins.

Fólk getur enn hringt í heilsu­gæsluna varðandi mögu­lega sýna­töku en þeir sem eru með ein­kenni ganga fyrir. Þá í­trekaði Alma mikil­vægi þess að fólk sem eru í sótt­kví fari í sýna­töku ef þau fá boð um slíkt en ekki sé hægt að flýta sýna­töku.

Fólk áfram hvatt til að sækja sér heilbrigðisþjónustu

Alma kom einnig til skila skila­boðum frá Land­spítala þar sem margir séu að leita þangað vegna ein­kenna CO­VID-19. „Við viljum biðla til fólks ef það er ekki bráð­veikt að leita fyrst til heilsu­gæslu og í sýna­töku áður en komið er á bráða­mót­töku, en auð­vitað eiga allir sem eru bráð­veikir að leita þangað.“

Hún sagði enn fremur að fólk væri á­fram hvatt til að sækja sér heil­brigðis­þjónustu, hvort sem það er vegna líkam­legra eða geð­rænna vanda­mála. Hægt sé að hringja í heilsu­gæslu­stöðvar, nota net­spjall Heilsu­veru eða mæta á stöðvarnar, ef fólk hefur ekki verið út­sett fyrir smiti.

„Ég vil sér­stak­lega hvetja þá sem eru í með­ferð vegna geð­rænna vanda­mála að sækja með­ferðina á­fram og ég vil líka benda þeim á, sem finna fyrir kvíða eða á­hyggjum, að margt er hægt að gera sjálfur og víða hægt að leita sér að­stoðar,“ sagði Alma og vísaði til upp­lýsinga á co­vid.is og hjálpar­síma Rauða krossins.