Rúmlega 170 íbúar í Urriðaholtshverfi í Garðabæ hafa skrifað undir undirskriftalista á netinu til að krefjast betri samgangna. Lýtur krafan bæði að strætisvagnaferðum og göngu- og hjólastígum inn og út úr hverfinu. Dæmi eru um að íbúar hafi lýst yfir áformum um að flytja burt vegna þessa.

„Eina leiðin til að komast inn í Garðabæ er yfir þessi gatnamót hjá Kauptúni,“ segir Heiðrún Sigurðardóttir, sem stóð að söfnuninni. „Það eru engin undirgöng undir Reykjanesbrautina nema langt í burtu, hjá Vífilsstöðum.“

Urriðaholt hefur byggst mjög hratt upp. Búa þar nú meira en tvö þúsund manns í hverfinu en fullbyggt mun það hýsa hátt í fimm þúsund. Urriðaholtsskóli tók til starfa fyrir tveimur árum fyrir 1. til 4. bekk, en bætir við bekk á hverju ári og hafði því allt upp í 6. bekk í vetur.

Eldri nemendur eru flestir í Garðaskóla en sumir í Sjálandsskóla. Þessir nemendur þurfa að fara langa leið og yfir hættuleg gatnamót til þess að komast í skóla og frístundir, sem eru engar í Urriðaholti sem stendur.

Heiðrún segir slæmt að eina leiðin sé yfir þessi gatnamót. „Fólk keyrir alveg brjálæðislega hratt þarna. Ekki aðeins á gatnamótunum sjálfum heldur einnig í Hraununum hinum megin við þau,“ segir hún og bendir á að nýlega hafi orðið banaslys þarna. En í febrúar síðastliðnum varð gangandi vegfarandi á áttræðisaldri fyrir bíl og lést.

Strætisvagn keyrir aðeins í hverfið á háannatímum, á morgnana og síðdegis, og þá á hálftíma fresti. Þess á milli eru ferðir á klukkutíma fresti og aðeins ef vagninn er pantaður með hálftíma fyrirvara. Sá vagn fer aðeins inn í Ásgarð. Vilja íbúarnir fá reglulegri og betri strætisvagnaferðir inn í hverfið.

Samkvæmt bréfi Heiðrúnar sem hún sendi til bæjarstjórnar Garðabæjar kemur fram að margir foreldrar þori ekki annað en að skutla börnum sínum í skóla eða frístundir. Skjóti það skökku við í hverfi sem er skilgreint fyrsta umhverfisvæna hverfi landsins.

Gunnar Valur Gíslason, bæjarfulltrúi og fulltrúi Garðabæjar í stjórn Strætó, segir að tillögur um almenningssamgöngur í Urriðaholti hafi verið í vinnslu hjá Garðabæ á undanförnum mánuðum, í samvinnu við Strætó. „Í skipulagi er gert ráð fyrir að Strætó aki hring um Urriðaholtið og hefur það verið í skoðun um tíma hvernig best verður að útfæra þjónustu almenningssamgangna í hverfinu,“ segir hann.

Að sögn Gunnars hefur pöntunarkerfið verið þróunarverkefni til að kanna nýtingu til eins árs. Nú þegar verkefnið hafi verið í gangi í níu mánuði hafi Garðabær óskað eftir því að Strætó skoði möguleikann á því að lengja leiðina til að hún þjóni einnig fjölnota íþróttahúsi sem verið sé að byggja í Vetrarmýri.

Aðspurður um stíga segir Gunnar þá verða bætta. „Í gangi er vinna við að hefja vinnu við deiliskipulag fyrir göngu- og hjólastíg úr Urriðaholti yfir á Vífilsstaði sem breyta mun miklu fyrir íbúa í Urriðaholti, einkum varðandi aðgengi að fjölnota íþróttahúsinu sem í byggingu er í Vetrarmýri,“ segir hann. Nýr útivistarstígur yfir Garðahraun sé kominn í útboð sem muni bæta tengingu Urriðaholts við Ásgarð fyrir gangandi og hjólandi. Þá sé einnig unnið að því að bæta umferðaröryggi yfir gatnamótin við Kauptún.