Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöld og í nótt og voru yfir 30 tilfelli skráð í dagbók lögreglu.

Rétt eftir átta í gærkvöld var tilkynnt um rán og líkamsárás. Tveir aðilar voru handteknir og málið er í farvegi.

Fjögur ungmenni voru handtekinn vegna gruns um sölu á fíkniefnum.Þá var 15 ára barn tekið við akstur bifreiðar, málið verður unnið í samvinnu við barnaverndaryfirvöld

Laust fyrir miðnætti var tilkynnt um varðeld í Öskuhlíð, þar voru ungmenni að fagna próflokum. Þau voru beðin um að slökkva eldinn sem þau og gerðu.

Tilkynnt var um mann í annarlegu ástandi að áreita fyrrum sambýliskonu sína, hann var handtekinn þar sem hann hlýddi ekki fyrirmælum lögreglu um að láta af þessu háttarlagi.

Þá var tilkynnt um slys um klukkan hálf eitt í nótt en kona hafði dottið og rekið höfuð sitt í. Svaraði hún ekki áreiti og var flutt á bráðamóttöku með sjúkrabíl.

Rétt fyrir klukkan sex í morgun var tilkynnt um annað slys. En maður féll niður af þaki þar sem hann var að mála. Hann var fluttur á bráðamóttöku með sjúkrabifreið til frekari skoðunar.

Töluvert var um að ökumenn væru stöðvaðir, grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Þá var einnig margt um útköll lögreglu í heimahús vegna samkvæmishávaða. Tveir voru vistaðir í fangageymslu lögreglu.